Auglýsing

Alma Dögg reynir að selja „skilnaðarbarnið“ með óvenju skemmtilegri og einlægri auglýsingu

„Þetta skilnaðarbarn er til sölu. Mig minnir að honum hafi verið sleppt á göturnar 2005 og er ég, að ég held, annar eigandi hans. Hann er keyrður tæplega 160.000 kílómetra.“

Svona hefst auglýsing Ölmu Daggar á Facebook sem vill ólm losna við bílinn sinn sem er, að hennar sögn, mikið fyrir henni. Hún og fyrrverandi sambýlismaður hennar keyptu tryllitækið saman en þegar þau hættu saman fékk hún bílinn í sinn hlut.

Auglýsingin er einlæg og hikar Alma Dögg ekki við að viðurkenna að hún viti lítið sem ekkert um bílinn.

„Ég hef ekki hugmynd um hversu mörg hestöfl hann er eða sílendera hvað (?). Hann hefur mjög sjálfstæða bensíneyðslu og eyðir hann örugglega meira en venjulegur fólksbíll, en það er ekki eins og ég hafi eitthvað vit á því yfir höfuð,“ skrifar hún.

Hún veit þó að bíllinn hefur ýmsa kosti en líka galla.

„Hann er sjö sæta með ljósu leðri en engum hita í sætum. (HVAÐ á það að ÞÝÐA?) – en plássið í honum bætir svo sem upp fyrir það,“ skrifar Alma Dögg.

Bíllinn er mikið fyrir henni þannig að hún vill endilega losna við hann sem fyrst.

„Það er rugl gott að keyra þetta flykki en mikið lifandi ósköp sem hann er fyrir mér svo ef einhver vill taka þessa dúllu að sér þá má sá hinn sami senda mér skilaboð. Ég er líka alveg til í skipti fyrir minni bíl og þá eitthvað á milli ef það verður staðan.“

Ef spurningar vakna hjá hugsanlegum kaupendum mælir Alma Dögg ekki með því að þeir hafi samband við hana.

„Ef það vantar frekari upplýsingar um bílinn þá er alls ekki æskilegt að spyrja mig en velkomið að hafa samband við barnsföður minn,“ skrifar hún en það er fótboltamaðurinn Garðar Gunnlaugsson.

Auglýsingin hefur vakið mikla lukku og segir ein þeirra sem tjáir sig um málið meðal annars að þetta sé mögulega besta bílaauglýsing sem hún hafi séð.

Einn spyr Ölmu Dögg hvað bílinn sé á stórum dekkjum og felgum og það stendur ekki á svari. „Dekkin ná mér upp að mjöðmum, felgurnar eru sirka á stærð við aðra rasskinnina á mér,“ skrifar Alma Dögg.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing