Lagið What We Got, sem tónlistarkonurnar Alma Guðmundsdóttir og Klara Ósk Elíasdóttir sömdu vegna fimm ára afmælisherferðar Mikka Mús, verður frumflutt í sjónvarpsþættinum Good Morning America á morgun.
Teiknimyndapersónan kom fyrst fram á sjónarsviðið þennan dag árið 1928 og verður Mikki Mús því níræður árið 2018 en 88 ára á morgun.
Alma og Klara hafa unnið mikið með listamanninum og lagahöfundinum Tony Ferrari. og segir Alma að lög þeirra hafa náð athygli A&R og fleiri útgáfufyrirtækja í Bandaríkjunum.
Þegar fólkið hjá Disney heyrði það sem við höfum gert saman báðu þau okkur um að prófa að semja lag fyrir afmæli Mikka Mús.
Áður hafði Disney fengið nokkur lög frá öðru tónlistarfólki en þau hentuðu ekki. „Þau vildu fá lag í anda Can’t Stop The Feeling með Justin Timberlake,“ segir Alma.
Tónlistarfólkið fundaði því næst með hljóðframleiðandanum Andy Dodd sem hefur unnið mikið fyrir Disney. Fyrirvarinn var mjög stuttur og unnu þau því saman í gegnum Skype.
„Þetta gekk bara ótrúlega vel og þegar þau heyrðu lagið vildu þau nota það. Við erum að sjálfsögðu hæstánægðar með þetta og glaðar yfir því að hafa fengið þetta tækifæri,“ segir Alma.
Búið er að taka upp myndband við lagið en þar ferðast Mikki Mús um heiminn og dansar með fólki í hinum ýmsu stórborgum. Lagið og myndbandið verður frumflutt í sjónvarpsþættinum Good Morning America á morgun.