Hjónin Sigrún Birna Árnadóttir og Almar Eggertsson fluttu til Húsavíkur frá Danmörku fyrir átta árum. Allan þann tíma hefur Alma Rún, dóttir þeirra, þurft að þola mikið einelti í bænum bæði að hálfu barna og fullorðinna. Eftir sjálfsmorðstilraun í vikunni ákváðu Sigrún Birna og Almar að skrifa færslu á Facebook þar sem þau biðla til bæjarbúa að gefa Ölmu séns og hætta að leggja hana í einelti.
Í færslunni segir Sigrún að þegar hún og Almar hafi leitað til skólayfirvalda hafi þau fengið þau svör að Alma kæmi sér í þessar aðstæður sjálf. Alma ákvað í kjölfarið að skipta um skóla í 10. bekk og fara í Þingeyjarskóla þar sem henni leið mun betur. Eftir grunnskóla fór hún svo í framhaldsskóla á Laugum en í hvert sinn sem hún kemur heim til Húsavíkur verður hún samt sem áður fyrir aðkasti að sögn Sigrúnar.
„Eftir að við reyndum að taka á eineltinu með skólanum þegar hún var í 9. bekk hættu allir að tala við hana og henni leið eins og draug í skólanum,“ segir Sigrún í samtali við Nútímann.
Hún hatar að koma heim til Húsavíkur
Í vikunni átti sér svo stað atvikið sem fyllti mælirinn. Eftir mikið aðkast fékk hún nóg og tók inn lyf til að reyna að enda líf sitt. Henni var komið á sjúkrahús þar sem hún náði bata. Þegar af sjúkrahúsinu var komið og henni farið að líða ögn betur ákvað hún að fá sér göngutúr. Þar hitti hún einstaklinga sem hrópuðu að henni: „Af hverju gastu ekki bara drepist?“
Það var þá sem Sigrún og Almar ákváðu að stíga fram og tala um málið opinberlega. Sigrún segir að búið sé að ræða við gerendur í málinu og leysa málið en hún biðlar til samfélagsins á Húsavík að gefa Ölmu séns. „Okkur hjónum langar að biðja samélagið okkar og þá sérstaklega unga fólkið um að gefa dóttur okkar séns svo hún geti mögulega átt betri framtíð,“ segir Sigrún að lokum.