Ekkert hefur spurst til Þóris Kolka Ásgeirssonar síðan 27. júlí síðastliðinn en hann er 24 ára gamall og hefur, samkvæmt alþjóðalögreglunni Interpol, sennilega heimsótt lönd á borð við Ítalíu, Sviss og Egyptaland síðustu misseri.
Vísir greindi fyrst frá og ræðir við Grím Grímsson, yfirlögregluþjón hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu en hann er einnig tengiliður yfirvalda við Interpol. Í samtali við Vísi segir Grímur að fjölskylda Þóris hafi ekki haft spurnir af honum frá því 27. júlí en þremur dögum síðar var óskað eftir aðstoð lögreglunnar. Í kjölfarið var haft samband við Interpol sem nú hefur lýst eftir honum.
„Í þeim tilfellum sem þetta er gert er verið að reyna að átta sig á því hvar viðkomandi er staddur, þar sem sá hinn sami gæti verið í hættu,“ segir Grímur í viðtalinu en útskýrir það þó ekkert nánar.
Hægt er að sjá upplýsingar um Þóri Kolka á vefsíðu Interpol með því að smella hér.