Verslunarrisinn Amazon.com kynnti nýlega þjónustuna Amazon Global. Þjónustan á að auðvelda fólki utan Bandaríkjanna að kaupa vörur í vefversluninni.
Ísland er á meðal þeirra landa þar sem þjónustan er í boði. Stóri munurinn á þessari þjónustu og annarri verslun á netinu er að Amazon.com áætlar upphæð sem fer í tolla og vörugjöld og rukkar hana með vörunni ásamt því að sjá um að greiða af henni þegar hún er send til Íslands. Þess vegna fá viðskiptavinir vöruna senda beint heim.
Lesandi Nútímans sendi okkur þessa mynd sem sýnir Amazon.com rukka fyrir tolla og vörugjöld með verði vörunnar og sendingarkostnaði. Smelltu til að stækka:
Gríðarleg aukning hefur orðið í verslun á netinu. Finnur Árnason, forstjóri Haga, hefur lýst yfir áhyggjum sínum á uppgangi vefverslunar á Íslandi og benti á í útvarpsþættinum Bítinu á Bylgjunni í september að stærstu vefverslanirnar; Amazon.com, Ali Express og Ebay séu stærri á Íslandi en stærstu fataverslanir landsins, Debenhams og Lindex.
Amazon.com byrjaði sem bókaverslun á netinu árið 1994 en er í dag eitt stærsta fyrirtæki heims og býður upp á allt frá bókum upp í raftæki, fatnað og annað.