Leikkonan Amber Heard hyggst gefa skilnaðargreiðslur sínar frá Johnny Depp til góðgerðarmála. Um er að ræða sjö milljónir dala, eða rúmlega 818 milljónir króna.
Amber Heard og Johnny Depp giftu sig í fyrra. Þau komust að samkomulagi í vikunni um greiðslur frá Depp til hennar í kjölfar skilnaðar þeirra.
Sjá einnig: Amber Heard sakar Johnny Depp um ofbeldi, sagður hafa lamið hana með iPhone
Þrír mánuðir eru síðan Heard krafðist nálgunarbanns á Depp og sagði hann hafa beitt sig líkamlegu og andlegu ofbeldi. Málið hefur vakið mikla athygli vestanhafs.
Amber hyggst skipta upphæðinni í tvennt, annar helmingurinn fer til forvarna gegn heimilisofbeldi og hinn til barnaspítala í Los Angeles.
Í tilkynningu segir hún að nálgunarbannið og skilnaðurinn hafi aldrei snúist um peninga í huga sínum. Þá vonast hún til þess að peningarnir komi til með að nýtast þeim sem á þurfi að halda.