Þingmenn Sjálfstæðisflokksins voru ósáttir við að þurfa að ganga undir bandaríska fánann, sem hékk utan á American Bar á fundi. Fánarnir hafa verið teknir niður.
Eigendur American Bar í Austurstræti hafa tekið niður bandaríska fána sem héngu utan á staðnum. Þingmönnum Sjálfstæðisflokksins og starfsfólki þingsins fannst óþolandi að þurfa að ganga undir fánana og þeir voru því teknir niður.
Sjá einnig: Þingmenn segja óþolandi að ganga undir bandarísku fánana
Morgunblaðið greindi frá því að Alþingi leigir stóran hluta Austurstrætis 8-10 undir skrifstofur. Þar er skrifstofa nefndasviðs Alþingis ásamt skrifstofum þingflokks Sjálfstæðisflokksins, þingflokks Bjartrar framtíðar og starfsfólks Alþingis.
American Bar er á jarðhæð en barinn flaggar bandaríska fánanum bæði Austurstrætismegin og Austurvallarmegin.
Ingvar Hinrik Svendsen, einn af eigendum American Bar, segir í samtali við Nútímann að fánarnir hafi verið teknir niður.
„Við setjum bara lógóið okkar í staðinn,“ segir hann léttur og bætir við að allir séu kátir. „Helgin að koma og svona.“
Vilhjálmur Bjarnason, alþingismaður, sagði í samtali við Morgunblaðið að það sé óþolandi, þegar hann gengur inn í skrifstofuhúsnæði Alþingis, að ganga undir bandaríska fánann. Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis, er sammála.
Mér finnst þetta algjörlega óþolandi. Ég veit ekki annað en búið sé að ræða við eigendur hússins. Ég að minnsta kosti bað um að það yrði gert.
Einar sagði í Morgunblaðinu að þetta undirstiki þörfina á því að Alþingi væri í sínum eigin húsakynnum, þar sem þingið gæti ráðið öllu sem því við kemur.