Auglýsing

Anna Sigurlaug tjáir sig um Wintris-málið: „Þetta sner­ist bara um það að fella for­sæt­is­ráð­herrann“

Anna Sigurlaug Pálsdóttir, eiginkona Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, segir að umfjöllun um aflandsfélagaeign Sigmundar Davíðs hafi eingöngu snúist um að fella forsætisráðherrann. Hún segir marga hafa viljað ná sér niður á honum fyrir að hafa þvælst fyrir kröfu­höfum bank­anna og leyst úr stórum málum sem aðrir stjórn­mála­menn höfðu gef­ist upp á. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.

Viðtalið í Morgunblaðinu í dag er það fyrsta sem Anna Sigurlaug veitir eftir að Wintris-málið kom upp í mars. Anna greindi frá eign sinni á erlendu félagi í Facebook-færslu 15. mars síðastliðinn. Seinna kom í ljós að færslan var skrifuð í kjölfarið á því að Sigmundur Davíð var beðinn um að útskýra tilvist félagsins Wintris í viðtali við sænska blaðamanninn Sven Bergman.

Í Morgunblaðinu segir Anna Sigurlaug að að Sig­mundur Davíð hafi hringt í sig strax eftir viðtalið, miður sín yfir því að hafa verið beittur ósvífnum blekkingum. Hún segist í kjölfarið ákveðið að skrifa færsluna frægu á Facebook.

Anna Sig­ur­laug segir í Morgunblaðinu að fjölmiðlar hafi verið óheiðarlegir í málinu og ekki tekið til­lit til svara sem for­sæt­is­ráð­herra­hjónin fyrr­ver­andi hafi sent þeim í aðdraganda umfjöll­unar Kast­ljóss og Reykja­vík Media. „Sig­mundur vildi vaða strax í sjó­varps­menn­ina og óheið­ar­lega fram­göngu þeirra en aðrir töldu ekki rétt að veita þeim slíka athygli,“ segir hún.

Best væri að leggja bara fram öll gögn og sýna að ávirð­ingar sjón­varps­mann­anna hefðu verið rang­ar.

Hún segir að það hafi verið mikið áfall þegar þátt­ur­inn var svo sýndur 3. apríl að sjá að það var ekki minnst á svör þeirra. „Þau virt­ust engu máli skipta og það þótti greini­lega engin ástæða til að draga fram hið rétta í mál­inu,“ segir hún.

„Það var fyrst og fremst áfall því það stað­festi það sem okkur var farið að gruna að þetta sner­ist alls ekki um að fá fram hið sanna í mál­inu. Þetta sner­ist bara um það að fella for­sæt­is­ráð­herrann. Það sáu auð­vitað margir sem vildu ná sér niður á mann­inum sem hafði þvæl­st, svo eftir var tek­ið, fyrir kröfu­höfum bank­anna og leyst úr stórum málum sem aðrir stjórn­mála­menn höfðu gef­ist upp á að fást við.“

Í tilefni af viðtalinu við Önnu rifjar fjölmiðlamaðurinn Aðalsteinn Kjartansson, sem starfaði að birtingum Panama-skjalanna hjá Reykjavík Media, staðreyndirnar í málinu á Facebook-síðu sinni. Við gefum honum orðið:

  • Sigmundur Davíð og konan hans áttu saman aflandsfélag á Tortóla.
  • Sigmundur Davíð seldi eiginkonu sinni sinn hlut í félaginu fyrir 1 dollar daginn áður en ný lög um aflandsfélög gengu í gildi hér á landi.
  • Félagið, sem heitir Wintris Inc., var kröfuhafi í þrotabú bankanna þriggja.
  • Þessar upplýsingar voru ekki opinberar almenningi (kjósendum) fyrr en greint var frá þeim í fjölmiðlum.
  • Sigmundur Davíð og eiginkonan hans vildu ekki eða gátu ekki sýnt nein gögn sem spurt var um þegar umfjöllun um félagið var í vinnslu.
  • Það hafa þau heldur ekki gert síðan þrátt fyrir að fleiri fjölmiðlar hafi spurt.
  • Sigmundi Davíð var ítrekað boðið í annað viðtal vegna Wintris, sem hann hafnaði, en bauð sjálfur óformlegan leynifund sem ekki mátti vitna til.
Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing