Anna Sigurlaug Pálsdóttir, eiginkona Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, segir að umfjöllun um aflandsfélagaeign Sigmundar Davíðs hafi eingöngu snúist um að fella forsætisráðherrann. Hún segir marga hafa viljað ná sér niður á honum fyrir að hafa þvælst fyrir kröfuhöfum bankanna og leyst úr stórum málum sem aðrir stjórnmálamenn höfðu gefist upp á. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.
Viðtalið í Morgunblaðinu í dag er það fyrsta sem Anna Sigurlaug veitir eftir að Wintris-málið kom upp í mars. Anna greindi frá eign sinni á erlendu félagi í Facebook-færslu 15. mars síðastliðinn. Seinna kom í ljós að færslan var skrifuð í kjölfarið á því að Sigmundur Davíð var beðinn um að útskýra tilvist félagsins Wintris í viðtali við sænska blaðamanninn Sven Bergman.
Í Morgunblaðinu segir Anna Sigurlaug að að Sigmundur Davíð hafi hringt í sig strax eftir viðtalið, miður sín yfir því að hafa verið beittur ósvífnum blekkingum. Hún segist í kjölfarið ákveðið að skrifa færsluna frægu á Facebook.
Anna Sigurlaug segir í Morgunblaðinu að fjölmiðlar hafi verið óheiðarlegir í málinu og ekki tekið tillit til svara sem forsætisráðherrahjónin fyrrverandi hafi sent þeim í aðdraganda umfjöllunar Kastljóss og Reykjavík Media. „Sigmundur vildi vaða strax í sjóvarpsmennina og óheiðarlega framgöngu þeirra en aðrir töldu ekki rétt að veita þeim slíka athygli,“ segir hún.
Best væri að leggja bara fram öll gögn og sýna að ávirðingar sjónvarpsmannanna hefðu verið rangar.
Hún segir að það hafi verið mikið áfall þegar þátturinn var svo sýndur 3. apríl að sjá að það var ekki minnst á svör þeirra. „Þau virtust engu máli skipta og það þótti greinilega engin ástæða til að draga fram hið rétta í málinu,“ segir hún.
„Það var fyrst og fremst áfall því það staðfesti það sem okkur var farið að gruna að þetta snerist alls ekki um að fá fram hið sanna í málinu. Þetta snerist bara um það að fella forsætisráðherrann. Það sáu auðvitað margir sem vildu ná sér niður á manninum sem hafði þvælst, svo eftir var tekið, fyrir kröfuhöfum bankanna og leyst úr stórum málum sem aðrir stjórnmálamenn höfðu gefist upp á að fást við.“
Í tilefni af viðtalinu við Önnu rifjar fjölmiðlamaðurinn Aðalsteinn Kjartansson, sem starfaði að birtingum Panama-skjalanna hjá Reykjavík Media, staðreyndirnar í málinu á Facebook-síðu sinni. Við gefum honum orðið:
- Sigmundur Davíð og konan hans áttu saman aflandsfélag á Tortóla.
- Sigmundur Davíð seldi eiginkonu sinni sinn hlut í félaginu fyrir 1 dollar daginn áður en ný lög um aflandsfélög gengu í gildi hér á landi.
- Félagið, sem heitir Wintris Inc., var kröfuhafi í þrotabú bankanna þriggja.
- Þessar upplýsingar voru ekki opinberar almenningi (kjósendum) fyrr en greint var frá þeim í fjölmiðlum.
- Sigmundur Davíð og eiginkonan hans vildu ekki eða gátu ekki sýnt nein gögn sem spurt var um þegar umfjöllun um félagið var í vinnslu.
- Það hafa þau heldur ekki gert síðan þrátt fyrir að fleiri fjölmiðlar hafi spurt.
- Sigmundi Davíð var ítrekað boðið í annað viðtal vegna Wintris, sem hann hafnaði, en bauð sjálfur óformlegan leynifund sem ekki mátti vitna til.