Leikkonan Anna Svava Knútsdóttir og Gylfi Þór Valdimarsson, ísgerðarmaður í Valdís, eiga von á sínu fyrsta barni saman. Þetta staðfestir Anna Svava í samtali við Nútímann — sem óskar þeim að sjálfsögðu til hamingju.
Anna Svava hefur í nógu að snúast þessa dagana en eins og Nútíminn greindi frá á dögunum er hún ein af handritshöfundum Áramótaskaupsins í ár. Gylfi Þór er maðurinn á bakvið Valdís, sem er ein vinsælasta ísbúð landsins.
Anna sagði söguna af því hvernig hún kynntist Gylfa í viðtali við Fréttatímann í fyrra. „Ég ætla alltaf að vera með honum. Það var bara ákveðið eftir viku,“ sagði hún en þau rákust á hvort annað á djamminu eftir leynibrúðkaup sem hún skipulagði fyrir vinkonu sína:
Um kvöldið fórum við allar vinkonurnar að djamma og ég kynntist kærastanum mínum. Þetta var í fyrsta skiptið sem hann fór á djammið síðan hann flutti frá Danmörku. Í öllum látunum heyrðist honum ég heita Helga og hann kallaði mig Helgu allt kvöldið. Við ákváðum að hittast á þriðjudeginum þar á eftir. Við fórum á Snaps og fengum okkur rauðvín. Það vildi svo ekki betur til en svo að hann varð fárveikur og ældi og ældi. Hann þurfti að vera hér á sófanum hjá mér til morguns með fötu til að æla. Þannig var fyrsta stefnumótið. En við byrjuðum saman. Ég held að þetta sé karma. Ég held að eftir brúðkaupsskipulagninguna hafi ég bara átt skilið að kynnast svona fullkomnum gaur.