Apple vildi funda um gagnaver með Sigmundi Davíð í Kaliforníu. Ekki hefur hins vegar tíðkast að forsætisráðherra ferðist sérstaklega milli landa til að koma á fundum milli einstakra fyrirtækja Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem forsætisráðuneytið hefur sent frá sér í kjölfar frétta um að beiðnum um gagnaver Apple hafi ekki verið svarað.
Sjá einnig: Beiðnum um gagnaver Apple ekki svarað
Í yfirlýsingunni kemur fram að fyrirtækið Skakkiturn ehf. hafi í mars í fyrra sent tölvupóst til forsætisráðuneytisins þar sem óskað var eftir aðstoð forsætisráðherra við að koma á fundi milli Skakkaturns ehf. og Apple Inc. í Bandaríkjunum. Skakkiturn ehf. er viðurkenndur söluaðili hér á landi á tölvubúnaði frá Apple og rekur verslanir undir heitinu Epli.
Í tölvupóstinum óskaði starfsmaður Skakkaturns ehf. eftir aðstoð forsætisráðherra við að koma á fundi milli ráðamanna Apple og forsvarsmanna Skakkaturns ehf. Í tölvupóstinum kom fram að forsvarsmenn Skakkaturns ehf. hefðu verið í sambandi við fólk í höfuðstöðvum Apple, sem væri reiðubúið að koma á fundi ef forsætisráðherra hugnaðist að heimsækja höfuðstöðvar Apple í Kaliforníu.
Forsætisráðherra sinnir árlega fjölda erinda frá innlendum og erlendum aðilum til að liðka fyrir fjárfestingum og atvinnuuppbyggingu hér á landi. Ekki hefur hins vegar tíðkast að forsætisráðherra ferðist sérstaklega milli landa til að koma á fundum milli einstakra fyrirtækja og því taldi ráðuneytið að ekki væri hægt að verða við ósk starfsmanns Skakkaturns ehf.
Þá kemur fram að ráðuneytið harmi að tölvupóstinum frá Skakkaturni ehf. hafi ekki verið svarað og kannar nú ástæður þess.