Í dag er ár liðið frá því að free the nipple-byltingin hófst á Twitter. Byltingin hófst þegar Verzlunarskólaneminn Adda Þóreyjardóttir Smáradóttir birti mynd af sér þar sem hún var ber að ofan og ungur maður gerði lítið úr henni. Í kjölfarið rigndi stuðningsyfirlýsingum yfir Öddu og málstaðinn.
Hún sagði í samtali við Nútímann að baráttan snerist um að eyða tvískinnungi og að konur ættu að geta verið berar að ofan eins og strákar.
Byltingin vakti gríðarlega athygli. Kassamerkið #freethenipple hélt utan um mikla umræðu á samfélagsmiðlum þar sem konur birtu myndir af sér berum að ofan til styðja málstaðinn.
Nanna Hermannsdóttir, vinkona Öddu, birti færslu á Facebook í dag þar sem hún segir að dagurinn sé heilagur og það tengist Jesú ekki neitt.
„Hún [Adda] var komin með nóg af þeim double standard sem við lifum við. Að konur eigi að skammast sín fyrir líkama sinn. Fyrir einu ári ákvað ónefndur nafni hennar að taka það á sig að drulla yfir þessa ákvörðun hennar, líkama og um leið frelsi,“ segir hún.
Fyrir ári síðan sat ég sveitt við tölvuna mína heilan dag og tók rétt aðeins pásu til að spjalla við Atli Fannar um byltinguna sem var í gangi á Twitter, en Nútíminn virtist vera eini miðillinn sem þorði að taka af skarið og fjalla um málið.
Nanna segir margt hafa breyst á árinu sem er liðið frá þessu degi. „Ég er þakklát brjóstabyltingunni. Ég er þakklát þeim styrk og tækifærum sem hún hefur gefið mér, ég er þakklát sterku konunum sem tóku þátt í því að gera þetta að veruleika og ég er þakklát fyrir þá jákvæðu athygli sem fjölmiðlar hafa sýnt okkur,“ segir hún.
Hún segist þó ekki vera þakklát fyrir skoðanir Facebook á málinu en myndir af brjóstum kvenna er ritskoðaðar ólíkt samskonar myndum af körlum. „Fyrir ári var tekið stórt skref í átt að jafnrétti kynjanna. Nú gefumst við ekki upp,“ segir Nanna.