Auglýsing

Árásarhnífar seldir fyrir opnum tjöldum í miðborg Reykjavíkur: „Þetta verður að stöðva“

Stórhættulegir hnífar eru seldir fyrir opnum tjöldum í Kolaportinu og hafa verið seldir þar í fjöldamörg ár. Það skýtur skökku við að hnífar á borð við þá sem þar eru seldir eru gerðir upptækir við landamærin á Keflavíkurflugvelli en á sama tíma er auðvelt að verða sér úti um slíka hnífa í miðborg Reykjavíkur á vinsælasta flóamarkaði landsins.

Nútíminn hefur undir höndum myndskeið sem sýna umrædda hnífa en þeir eru af öllum stærðum og gerðum. Ekki er um að ræða hnífa líkt þeim sem notaðir eru í eldhúsum landsins því þetta eru svokallaðir „árásarhnífar“ og eru sumir þeirra með sérstökum sköftum. Sú hönnun er til þess að tryggja það að hnífurinn renni ekki fram eða aftur í hendi, sérstaklega þegar honum er beitt af miklum krafti.

„Þetta verður að stöðva,“ sagði sá sem sendi Nútímanum meðfylgjandi myndskeið.

Lögreglan veit af sölunni

Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, segir í samtali við Nútímann að embættið viti af sölu þessara hnífa og verið sé að skoða hvort og þá til hvaða aðgerða verður gripið.

Samkvæmt íslenskum lögum, sérstaklega vopnalögum nr. 16/1998 með síðari breytingum, er óheimilt að eiga eða flytja inn til landsins ákveðnar tegundir hnífa sem teljast til „sérstaklega hættulegra vopna.“ Hér eru nokkrar tegundir hnífa sem eru ólöglegar á Íslandi:

1. Hnífar með „skiptiblaði“ (e. Switchblades): Þetta eru hnífar sem opnast sjálfkrafa við að ýta á hnapp eða annað tæki á handfanginu. Þessir hnífar eru bannaðir bæði til innflutnings og eignar.

2. „Fiðrildahnífur“ (e. Butterfly knives): Hnífar sem eru með handfangi sem snýst um blaðið og opnast eða lokast þegar handfanginu er snúið eru einnig ólöglegir. Þeir eru taldir sérstaklega hættulegir vegna hraða og auðveldrar notkunar.

3. Hnífar með sérstaklega löngu blaði: Sérstaklega langir hnífar, þar sem blaðið er langt umfram það sem þörf er á í daglegum tilgangi, eru ólöglegir, þar sem þeir eru taldir sérstaklega hættulegir og ætlaðir til árása.Viðmiðið er 12 cm.

4. Hnífar sem eru hannaðir til að líkjast öðrum hlutum: Þetta eru hnífar sem eru dulbúnir sem önnur tæki, eins og belti, pennar eða aðrir hlutir sem ekki eru venjulega hnífar. Slík vopn eru bönnuð vegna þess hve auðvelt er að fela þau.

Það er einnig óheimilt að eiga eða flytja inn eftirlíkingar slíkra vopna ef erfitt er að greina þau frá raunverulegum vopnum. Vopn sem eingöngu eru ætluð til hernaðarnota, eins og hnífar sem eru sérstaklega hannaðir til notkunar í hernaði, eru einnig bannaðir – bæði til eignar og innflutnings.

18% hnífaárása framin af ungmennum

Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri segir að aukinn vopnaburður ungmenna sé ekki bara efst á baugi hérlendis heldur líka hjá lögregluembættum annars staðar á Norðurlöndum. Þetta kom fram í Silfrinu á RÚV í gærkvöldi. Þar tók Sigríður Björk einnig fram að þróunin sé ný en hafi farið versnandi síðustu tvö ár. Hún tekur þó fram að vopnaburðurinn og beiting vopna sé ekki útbreidd.

Hér má sjá vænghnífa (e. Butterfly knives) sem tollurinn hefur tekið af farþegum við komuna til landsins.

Það þarf þó ekki að leita lengra en til Bretlands til þess að sjá hversu alvarlegt ástandið er orðið þegar það kemur að hnífaburði ungmenna og beitingu slíkra vopna með hörmulegum afleiðingum.

Um 18% af hnífaárásum í Bretlandi eru framin af ungmennum á aldrinum 10 til 17 ára en í fyrra voru 78 einstaklingar undir 25 ára aldri myrtir með hníf. Breska þingið greindi frá því í fyrra að þrátt fyrir aukin fjárframlög til forvarna og æskulýðsstarfa í landinu hefur hnífaofbeldið aukist jafnt og þétt.

Frá árinu 2015 hefur hnífaglæpum fjölgað um 70-80% en árið 2015 voru 27 þúsund tilfelli skráð þar sem hnífum var beitt í árásum. Í fyrra voru tilfellin tæplega 60 þúsund.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing