Argentínska karlalandsliðið í knattspyrnu hefur aflýst vináttulandsleik sem átti að fara fram gegn Ísrael í vikunni. Leikmenn og þjálfarar liðsins vildu ekki spila leikinn.
Argentínskir fjölmiðlar greindu frá þessu í gærkvöldi en ástæðan er pólitísk. Leikurinn átti að fara fram í úthverfi Jerúsalem þar sem áður stóð palestínskt þorp sem var lagt í eyði árið 1948 þegar hátt í milljón Palestínumenn voru hraktir frá heimilum sínum til að byggja upp Ísraelsríki.
Samtök arabaríkja höfðu hvatt Argentínu til þess að hætta við leikinn en óttast var um bæði öryggi leikmanna og stuðningsmanna liðsins vegna hugsanlegra hryðjuverkaárása. Margir höfðu mótmælt því að leikurinn ætti að fara fram vegna stríðsástands í Ísrael í dag vegna deilunnar við Palestínumenn.
Argentínumenn munu reyna að finna annan mótherja til þess að spila við áður en þeir mæta Íslendingum á HM en það er þó talið ólíklegt að það náist.