Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri í Kópavogi, gagnrýndi forsætisráðherra fyrir að gagnrýna launahækkun sína þegar hún þáði sjálf háa launahækkun árið 2016. Þetta kom fram í útvarpsþættinum Sprengisandi á Bylgjunni í morgun.
Laun Ármanns hækkuðu um 32,7 prósent milli áranna 2016 og 2017 og eru nú um 2,5 milljónir á mánuði. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra gagnrýndi launahækkunina í Víglínunni á Stöð 2 í gær og sagði að hana óhóf.
Í viðtalinu í Sprengisandi sagði Ármann að laun hans hafi verið reiknuð út í samræmi við launaþróun í landinu og benti á að launahækkun hans sé lægri en sú sem þingmenn og ráðherrar fengu árið 2016. Vísar hann þar í 45 prósent launahækkun þingmanna í október árið 2016.
Hann gagnrýndi að Katrín hafi sjálf þegið launahækkun þrátt fyrir að hafa lofað breytingum. „Hún tók þessi laun upp á 35 prósent og 45 prósent sem þingmaður. Allt hennar fólk tók þessi laun,“ sagði Ármann í Sprengisandi.
„Það var boðað að gera eitthvað. Það var ekkert gert og ennþá er verið að boða að gera eitthvað. Af orðum hennar má skilja að það eigi að tengja laun þingmanna, ráðherra og dómara við launaþróun opinberra starfsmanna og það er akkúrat það sem við gerðum.“
Ármann sagðist í þættinum taka á sig launalækkun ef það yrði ákvörðun bæjarstjórnar eftir kosningar.