Auglýsing

Árnar á Íslandi sameinast: „Höfum það fram yfir Gunnara að við eigum okkar eigin peningaseðil“

Sameinaður hópur Árna styður hóp Gunnara en telur þó að Gunnarar séu á villigötum með draumum sínum um að stofna leynireglu á borð við Frímúrara. Nútíminn sagði frá hópnum, Gunnarar á Facebook í vikunni en hann inniheldur tæplega 500 menn sem bera nafnið Gunnar að fyrsta nafni. Gunnarar er ekki eini hópurinn sinnar tegundar á Íslandi því hópurinn Árni sem stofnaður var desember 2016 hefur svipaðan tilgang.

Sjá einnig: Gunnar vill safna öllum sem heita Gunnar saman og stofna leynireglu Gunnara á Íslandi

Árnar eru frábrugðnir Gunnurum að því leyti að til þess að ganga í hópinn nægir að hafa nafnið Árni sem fornafn eða millinafn. Árnar eru í dag 200 talsins en markmið hópsins er að sameina alla Árna landsins undir sama hatt.

Árni Baldur Ólafsson, stofnandi og talsmaður Árna á Íslandi segir í samtali við Nútímann að framtíð Árni á Íslandi sé björt. „Með hópnum viljum við sameina alla Árna til mikilla verka þar sem við eru framsýnir og víðsýnir auk þess að vera mjög hæfir til allra verka,“ segir Árni stoltur.

Nokkrir frægir Árnar eru í hópnum en þar má nefna Árna Johnsen, fyrrverandi þingmann, Árna Mathisen, fyrrverandi fjármálaráðherra og Einar Árna Jóhannsson körfuboltaþjálfara. 

Þeim sem nefndir eru Árni hefur fækkað stöðugt undanfarin ár en Árni Baldur hefur ekki miklar áhyggjur af því. „Það virðist vera þannig með þessi eldri nöfn eins og Árni og Gunnar að þeim fækkar,“ segir hann.

Ástæðan er sennilega sú að mannanafnanefnd er búin að bæta við hjá sér nokkrum nöfnum þannig að möguleikunum hefur fjölgað. Ég held samt að með því að sýna hversu öflugir við Árnarnir erum gerir fólk sér grein fyrir því að það er gott að heita Árni.

Það er ekki hjá því komist að spyrja Árna út í Gunnara og hvort rígur sé milli hópana. „Gunnarshópurinn er góður og gildur sem slíkur og við komum til með að styðja við bræður okkar í þeirra starfi,“ segir Árni.

„Þeir eru samt á villigötum með að tengja sig við Frímúrara. Við erum ekki hrifnir af slíku leynimakki.“

Árni bætir við að þeir hafi margt framyfir Gunnara. „Við höfum það líka fram yfir þá að við eigum okkar eigin peningaseðil og lag sem er tileinkað okkur,“ en þar vísar Árni í lagið Járnkarlinn eftir Bjartmar Guðlaugs.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing