Kraftlyftingakonan Arnhildur Anna Árnadóttir telur að konur óttist ekki lengur að verða of vöðvastæltar og stundi því kraftlyftingar í meira mæli og eru óhræddari en áður. Arnhildur bætti eigið Íslandsmet í -72 kílóa flokki í réttstöðulyftu um helgina.
Arnhildur er 24 ára gömul og lyfti 200 kílóum í réttstöðulyftu síðastliðinn laugardag á íslandsmeistaramótinu í réttstöðulyftu á Patreksfirði. Sjáðu myndband af lyftunni hér fyrir ofan.
Fleiri konur stunda kraftlyftingar nú en áður og telur Arnhildur að nokkrar ástæður séu fyrir því. „Ég tel að fleiri viti að það er hægt að lyfta án þess þó að stækka of mikið,“ segir Arnhildur.
Ég var tíu kílóum þyngri áður en ég byrjaði í þessu. Kraftlyftingar hjálpuðu mér við að komast í gott form.
Arnhildur telur að í dag þyki flottara að konur séu sterkar — það þyki ekki aðeins flott að vera einungis grönn. „Ef maður horfir á konur í kraftlyftingum sér maður að þær eru yfirleitt í mjög góðu formi,“ segir hún. „Annars tölum við frekar um þyngdir og bætingar en um útlit í þessu sporti.“
„Núna eru líka margar konur byrjaðar í þessu og því fylgir mikil samkeppni sem bætir ímynd íþróttarinnar enn meira.“
Markmið Arnhildar þegar hún byrjaði í kraftlyftingum var að koma sér í betra form. Mamma hennar var þá byrjuð í kraftlyftingum og á stóran þátt í ákvörðun hennar. „Skemmtilegt að segja frá því að ég keppti á fyrsta mótinu mínu árið 2012 og mamma keppti sömuleiðis á því móti.“
Og Arnhildur segist alls ekki vera hætt. „Þetta er svo mælanleg íþrótt og það er alltaf hægt að bæta sig,“ segir hún. „Ég mun klárlega halda áfram í þessu.“