Aron Einar Gunnarsson fyrirliði Íslands í fótbolta telur að hann muni ná fyrsta leik Íslands á HM gegn Argentínu. Hann er nýkominn til landsins frá Katar þar sem hann var í meðhöndlun vegna meiðsla. Aron gekkst undir aðgerð fyrir um mánuði síðan eftir að hafa orðið fyrir hnémeiðslum í leik með liði sínu Cardiff.
Sjá einnig: Meiddur Gunnar Nelson býður meiddum Aroni Einari í kaffi
Aron var bjartsýnn á framhaldið þegar fjölmiðlar ræddu við hann í morgun. „Mér líður eins og ég nái leiknum við Argentínu, mér líður eins og ég sé á plani. Ég er mjög jákvæður, sáttur við standið á mér,“ sagði Aron í samtali við 433.is.
Framundan eru vináttulandsleikir gegn Gana og Noregi. Aron telur ólíklegt að hann geti tekið þátt í þeim leikjum. ,,Það þarf að meta mig með sjúkraþjálfurum hvað ég get gert á morgun. Ég er rólegur í dag, ég reikna ekki með því að spila í æfingarleikjunum,“ bætti Aron við.
Fyrsti leikur Íslands á Heimsmeistaramótinu í Rússlandi verður gegn Argentínu í Moskvu 16. júní.