Landsliðsfyrirliðinn Aron Einar Gunnarsson er virkilega ánægður að sjá að Ísland verði með í næsta FIFA-leik. Hann hætti sjálfur að spila leikinn fyrir tveimur áratugum og reiknar ekki með að taka upp þráðinn.
Sjá einnig: Íslenska karlalandsliðið í fótbolta í FIFA 18: „Jákvætt markaðslega fyrir íslenskan fótbolta“
Eins og greint var frá fyrr í dag verður Íslenska karlalandsliðið í fótbolta með í tölvuleiknum FIFA 18, sem kemur út 29. september. Leikurinn er einn sá vinsælasti í heimi en eins og þjóðin man eftir var liðið ekki í leiknum í fyrra.
Aron Einar var á leiðinni heim til Wales þegar Nútíminn náði í hann. „Það er virkilega gaman að sjá að Ísland sé með í leiknum og ég er ánægður fyrir hönd stuðningsmannanna. Ég hef sjálfur ekki spilað leikinn síðan ’98 og ég reikna ekki með að það breytist,“ segir hann léttur.