Artur Jarmoszko tók út alla peningana sem hann átti inni á bankareikningi sama dag og hann hvarf. Fjölskylda hans óttast að honum hafi verið gert mein. Þetta kom fram í fréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi.
Þriðjudaginn 28. febrúar tók Artur strætó í miðbæ Reykjavíkur. Í frétt Stöðvar 2 kom fram að fjölskylda hans hafi fengið þær upplýsingar frá lögreglu að sama dag hafi hann tekið út alla peningana sem hann átti inni á reikningi.
Artur sást síðast í eftirlitsmyndavél rétt fyrir miðnætti þetta kvöld og rúmum tveimur tímum síðar er slökkt á farsíma hans. Hann hefur ekki notað greiðslukort sitt á þeim tólf dögum sem hans hefur verið saknað, eins og Nútíminn greindi frá á föstudag.
Artur er 26 ára gamall og flutti til Íslands frá Póllandi fyrir fimm árum. Tveir bræður hans ásamt fleiri fjölskyldumeðlimum búa hér á landi en foreldrar hans búa í Póllandi. Robert Jarmoszko, bróðir Arturs, sagði í fréttum Stöðvar 2 í gær að Artur vildi ferðast og heimsækja vini sína í Kanada.
„Það er líka óvenjulegt að einhver fari úr Breiðholti niður í miðbæ til að taka út pening,“ sagði hann. Guðmundur Páll Jónsson lögreglufulltrúi sagði við fréttastofu 365 nánast útilokað að Artur hafi farið úr landi.
Beðið er eftir upplýsingum úr síma Arturs. Björgunarsveit er tilbúin að hefja leit um leið og þær upplýsingar berast og vitað er hvar farsíminn var staddur síðast.
Þau sem geta gefið upplýsingar um ferðir Arturs, eða vita hvar hann er að finna, eru vinsamlegast beðin um að hafa samband við lögregluna í síma 444-1000. Upplýsingum má einnig koma á framfæri í tölvupósti á netfangið gudmundur.pall@lrh.is eða í einkaskilaboðum á fésbókarsíðu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.