Ákvörðun um að segja leikaranum Atla Rafni Sigurðarsyni upp störfum var ekki tekin í kjölfar nafnlausra ásakana. Þetta segir Kristín Eysteinsdóttir, leikhússtjóri Borgarleikhússins í samtali við RÚV.
Kristín segir í samtali við RÚV að með brottrekstrinum hafi Borgarleikhúsið verið að bregðast við beinum tilkynningum, meðal annars frá starfsfólki. Þá segir hún að Atli Rafn hafi verið upplýstur um hvers eðlis tilkynningarnar voru.
Sjá einnig: Atli Rafn mun að öllu óbreyttu snúa aftur til starfa hjá Þjóðleikhúsinu
Eins og Nútíminn greindi frá í gær þá hefur leikaranum Atla Rafni Sigurðarsyni hefur verið sagt upp störfum í Borgarleikhúsinu. Krístin segir á vef RÚV að einhugur hafi verið um ákvörðunina innan leikhússins.
„Ég var að bregðast við beinum tilkynningum, meðal annars frá starfsfólki, sem hafa borist beint til leikhússtjóra. Leikhússtjóri, framkvæmdastjóri og stjórn Leikfélags Reykjavíkur voru einhuga um þessa ákvörðun og hún var tekin eftir mikla yfirlegu og að vandlega ígrunduðu máli.“