Tónlistarmaðurinn Ásgeir Trausti Ásgeirsson mun ferðast um Ísland í sumar og halda tónleika til þess að kynna nýja plötu. Tónleikaferðalagið hefst 17. júlí og er planið að halda tónleika á 14 stöðum víða um land á 16 dögum.
Ásgeir mun ferðast með Júlíusi Róbertssyni, gítarleikara og bakraddarsöngvara, um landið en þetta verður í fyrsta skipti sem þeir fara á svokallað tónleikaferðalag um landið þrátt fyrir að hafa spilað saman oft áður.
„Ég fékk þessa hugmynd fyrir nokkrum vikum – mig langaði í raun bara að prófa þetta, Þetta „format“ af túrum – þetta er svolítið öðruvísi þarna úti þegar við förum með allt bandið. Þá er þetta meira svona „show“ og við spilum á stærri stöðum. Mig langaði til að taka minni staði og vera nær fólkinu,” segir Ásgeir í samtali við Vísi í morgun.
Ásgeir segir við Vísi að hann sé að vinna í nýrri plötu á íslensku sem mun koma út á næsta ári. „Við erum búnir að vera að vinna í henni alveg frá ársbyrjun í rauninni og erum komnir svolítið á leið með hana, ég held að sumarið farið svolítið í að vinna að henni. Við ætlum þá líka að nýta þessa ferð í að kynna þau lög svona sem fyrsta „build up“ að þessari plötu.“