Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir er 25 ára ritari Sjálfstæðisflokksins. Hún tilkynnti í Fréttablaðinu í dag að hún ætli að bjóða sig fram í prófkjöri sjálfstæðismanna í Reykjavík fyrir alþingiskosningarnar í haust. Prófkjörið fer fram í ágúst en áður en það hefst ætlar hún á sjó að veiða makríl.
Áslaug sótti um starf sjómanns og átti að halda út í ágúst. Hún ákvað svo að bjóða sig fram í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins og flýtti því sjómennskunni um mánuð. Sem sjómaður mun hún halda af stað frá Vestmannaeyjum og er hver túr stuttur, einungis nokkrir dagar.
„Einhvern veginn þarf maður að vinna á sumrin með námi og mig langaði að nýta tækifærið á meðan maður er laganemi að gera fjölbreytta hluti á sumrin,“ segir Áslaug í samtali við Nútímann.
Ég byrjaði á því að vera blaðamaður, svo varð ég lögreglumaður og svo fékk ég þá flugu í hausinn að fara út á sjó.
Aðspurð segist hún ekki búast við því að lögfræðin né pólitísk reynsla nýtist henni á sjónum en reynslan úr lögreglustarfinu muni hiklaust hjálpa. Þar fékk hún að upplifa ýmislegt og voru verkefnin fjölbreytt. Hún ætli þó ekki að messa yfir sjómönnum um pólitík nema þeir verði fyrri til.
Þrátt fyrir væntanlegt starf á sjónum finnst Áslaugu makríll ekki góður. „Ég hef reyndar ekki fengið hann eins vel eldaðan og hann á að vera, en fiskur finnst mér góður.“