Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, ritari Sjálfstæðisflokksins, hefur verið kölluð kolheimsk tussa, frekjuhexi og stelpuræfill eftir að hún kom fram í umræðuþættinum Kvikunni á Hringbraut í vikunni. Þetta segir Áslaug Arna í færslu á Facebook í dag.
„Þetta fer ekki sérstaklega fyrir brjóstið á mér frekar en áður þar sem þetta gerist reglulega,“ segir hún.
Hvort sem ég er kölluð veruleikafirrt snobbtík, frekja eða humartík snýst það allt um reyna níða málstað minn í stað málefnalegrar gagnrýni sem ávallt er velkomin. Stundum finnst mér ég standa mig vel, stundum ekki, ég veit ekki allt og reyni bara alltaf að gera mitt besta.
Hún segir að það plagi sig frekar að þetta sé umhverfi sem hún hvetur annað ungt fólk að taka þátt í.
„Ungt fólk hefur miklar skoðanir og hefur áhuga á að taka þátt í pólitík, en það er að mörgu leyti skiljanlegt að það staldri við þegar svona er tekið á fólki af þeim sem eru ósammála,“ segir hún.
„Það er nú auðvitað meiri frekjan í mér að hafa skoðanir og vera stundum ákveðin. Ég ætti auðvitað helst að lækka í mér röddina og vera prúðari, því þannig eiga ungar konur að vera? Eða hvað? Er ekki örugglega 2016?“