Parið Ásrún Ester Magnúsdóttir og Egill Kaktus Þ. Wild hafa síðustu vikur hlúð að lunda sem fannst í grasi við gatnamót Kringlumýrarbrautar og Sæbrautar. Þau fóru með lundann til dýralæknis sem sagðist ekki geta gert neitt fyrir hann nema svæfa hann og ákvað parið því að taka hann með sér heim og hlú að honum.
Nútíminn fór í heimsókn til Ásrúnar, Egils og lundans Munda. Sjáðu viðtalið hér fyrir ofan.
Einn daginn fékk Ásrún símtal frá vinkonu sinni sem sagðist hafa séð ósjálfbjarga lunda í grasinu. Satt að segja var hún dálítið efins um að þetta væri í raun lundi, enda sjaldgæft að þeir leggi leið sína til Reykjavíkur. Ásrún og Egill settu lundann í kattabúr og fóru með hann dýralæknis. Þar sem hann virtist nokkuð hraustur ákváðu þau að taka hann með sér heim, frekar en að láta svæfa hann.
„Við vorum ekki alveg tilbúin í það af því að hann virtist vera nokkuð heill heilsu. Hann var með sterka vængi, fætur, það var ekkert að líkamanum. Hann hafði greinilega fengið þungt höfuðhögg og hann er með stóra sprungu alveg efst á nefinu sem bendir til þess að hann hafi lent á einhverju,“ segir Ásrún.
Lundinn Mundi styrkist með hverjum deginum og er mjög duglegur að borða. Honum finnst mjög gaman að fara í bað í bala og virðist hafa það mjög gott hjá parinu. Framtíðin verður þó að leiða í ljós hvað verður um hann en lundinn Mundi virðist vera blindur.
Lundinn Mundi er með Facebook-síðu og er hægt að fylgjast með honum þar.