Auglýsing

Ásta komst á Þjóðhátíð eftir að hafa selt búslóðina

Hin 19 ára gamla Ásta Gunnlaugsdóttir komst á Þjóðhátíð í Eyjum eftir að hafa safnað peningum með því að selja búslóðina sína. Öþrifaráð Ástu vakti mikla athygli í síðustu viku sérstaklega eftir að viðtal við hana birtist á Smartlandi.

Aðspurð segist hún hafa selt nógu mikið til að komast á Þjóðhátíð með öllum tilheyrandi kostnaði – og það innan sólarhrings. „Ég var nú reyndar að flytja aftur heim á Flúðir frá bænum og þurfti því að losa mig við þetta en mig vantaði um leið pening til að komast á Þjóðhátíð,“ segir hún í samtali við Nútímann.

Hún segir að fréttin um málið hafi hjálpað mikið til. „Það var einstaklingur sem las fréttina og vildi endilega selja mér miðann sinn,“ segir hún.

Í dalnum fékk ég að heyra setningar á borð við: „Ert þú ekki gellan sem seldi allt dótið sitt.“

Þrátt fyrir að hafa selt búslóð sína þá keypti Ásta sér ekki miða heim með Herjólfi á mánudeginum eins og allir vinir hennar. Þegar hún þurfti svo að komast heim blasti á höfninni við henni hundrað manna röð þeirra sem áttu ekki miða heim en vildu komast heim þrátt fyrir það.

Gekk þá stelpa sem átti aukamiða í bátinn óvænt upp að Ástu og bauð henni miðann í dallinn á kostnaðarverði. „Þessi stelpa kom eins og himnasending og vil ég þakka henni hér með fyrir,“ segir Ásta hress með þetta þjóðhátíðarkraftaverk.

Ásta eyddi ekki öllum peningnum þar sem ferðin var ódýrari en hún bjóst við. Ásta var í Eyjum frá föstudegi til mánudags og skemmti sér konunglega og segir ákvörðunina vera þá bestu sem hún hafi tekið. „Ég fer pottþétt aftur á næsta ári,“ segir hún.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing