Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, velti fyrir sér á Facebook-síðu sinni í gær hvort bakgrunnur múslima sem búa á Íslandi hafi verið kannaður og: „Hvort einhverjir „íslenskir múslimar“ hafi farið í þjálfunarbúðir hryðjuverkamanna eða barist í Afganistan, Sýrland eða öðrum löndum þar sem óöld ríkir meðal múslima.“ Gæsalappirnar í ummælunum eru hans.
Ummælin hafa vakið mikla athygli en Ásmundur segir í samtali við Vísi aðeins hafa verið að varpa þessu fram:
Ég velti því fyrir mér hvort við þurfum að hafa áhyggjur af því að hér leynist slíkt fólk. Ég hef ekki hugmynd um það. Mér finnst að við eigum að taka umræðuna um það. Hvað við viljum gera og hvernig við viljum standa að þessu. Ég spyr bara hvort við höfum gert eitthvað í þessu. Getum við það? Hvað býður löggjöfin upp á?
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir gagnrýnir Ásmund harðlega á Facebook-síðu sinni í dag og segir vægast sagt átakanlegt að vera í sama flokki og hann.
Áslaug skipaði 11. sæti í alþingiskosningunum 2013, Reykjavík suður fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Hún hefur verið í stjórn Sambands ungra sjálfstæðismanna frá 2011, í miðstjórn Sjálfstæðisflokksins frá 2013 og var formaður Heimdallar frá 2011 til 2013.
„Það er vægast sagt átakanlegt að vera í sama flokki og Ásmundur Friðriksson. Fordómar og fáfræði einkenna ummæli hans og passa engan vegin við þær frelsis- og frjálslyndishugmyndir sem ég trúi að meirihluti Sjálfstæðismanna standa fyrir,“ segir hún.
„Velti fyrir mér hvort hann eigi ekki betur heima í öðrum flokki sem hefur gælt við þessar skoðanir áður með mjög ósmekklegum hætti.“