Atli Helgason hefur afturkallað kröfu sína um að fá lögmannsréttindi sín að nýju. Atli var dæmdur í 16 ára fangelsi fyrir morðið á Einari Ern Birgissyni í maí 2001. Hann var þá einnig sviptur málflutningsréttindum. Hann sat inni í tíu og hálft ár og lauk afplánun 2010.
Sjá einnig: Faðir Einars Arnar um Atla Helgason: „Við höfum aldrei heyrt í honum“
Verjandi Atla las upp tilkynningu við aðalmeðferð málsins í dag í Héraðsdómi Reykjavíkur þar sem kom fram að Atli telur réttindi sín minna virði en þjáningar aðstandenda Einars Arnar.
Sóknaraðili, Atli Helgason, telur að starfsréttindi hans sem lögmaður séu minna virði en þjáningar aðstandenda sem umfjöllun um málið hefur endurvakið. Því hefur Atli afráðið að afturkalla að svo stöddu ósk sína um niðurfellingu réttindasviptingar.
Fulltrúi ríkissaksóknara gerði engar athugasemdir og var málið látið niður falla.
Kastljós greindi frá því á dögunum að Atli ætlaði að endurheima réttindin. Ákvörðunin kom fjölskyldu Einars Arnar í opna skjöldu. Faðir Einars Arnar sagði að Atli hefði aldrei sýnt merki neinnar iðrunar og að tíðindin væru sem blaut tuska í andlit fjölskyldunnar.