Auglýsing

Atli Helgason höfðar mál gegn ríkinu og krefst 713 milljóna króna í skaðabætur

Atli Helgason, sem var dæmdur í sextán ára fangelsi fyrir manndráp um aldamótin síðustu, hefur stefnt íslenska ríkinu til greiðslu skaðabóta vegna þess sem hann kallar mannréttindabrot. Stefnan verður þingfest í héraðsdómi Reykjavíkur á morgun en Nútíminn hefur stefnuna undir höndum. Þar kemur fram að Atli gerir þá kröfu að íslenska ríkið verði dæmt til að greiða honum rúmlega 713 milljónir króna í skaðabætur en þar af eru dráttarvextir upp á rúmlega 117 milljónir.

„Lögregluembættin á Suðurnesjum og í Reykjavík hafa beitt sér sérstaklega gegn stefnanda og beitt hann ranglæti og jafnvel fölskum ásökunum.“

Stefnan er fyrir margar sakir mjög athyglisverð en um er að ræða atriði sem, ef rétt reynast og Atli nær að sanna það fyrir dómi, kunna að vekja upp spurningar um línulaga spillingu innan stjórnkerfisins. Í stefnunni rekur Atli það sem hann kallar ofsafengið einelti.

Þetta einelti segir hann að bæði fjölskylda hans og samferðarmenn hafi einnig þurft að sæta úr fjölmörgum áttum í hinu opinbera kerfi. Atli telur að allt frá því hann lauk fangavist hafi stjórnvöld beitt sér sérstaklega fyrir því að hann gæti ekki öðlast mannréttindi eða unnið á ný sem lögfræðingur.

Fékk réttindin aftur en missti þau aftur

Atli fékk uppreist æru þann 23. nóvember árið 2015 og endurheimti þannig öll sín borgaralegu réttindi. Hann hafði þá verið sviptur réttindum til að starfa sem lögmaður. Þau réttindi fékk hann hins vegar aftur þegar hann skaut máli sínu til héraðsdóms Reykjaness sem veitti honum þau á ný þann 18. apríl 2018. Landsréttur var hins vegar ekki á sömu skoðun og héraðsdómur því lögmannsréttindi hans voru tekin af honum á ný þann 20. júní 2018.

Krafa Atla snýr einmitt að afleiðingum þess úrskurðar en samkvæmt honum ákvað dómstóllinn að breytingar á almennum hegningarlögum skyldu hafa áhrif til breytinga á uppreist æru Atla. Hann segir í stefnu sinni gegn íslenska ríkinu að hann sé „eini þekkti Íslendingurinn sem hafi þurft að þola mannréttindabrot af hálfu dómstóls sem felist í beitingu afturvirkra áhrifa refsilaga.“

Úrskurðurinn var felldur af þremur dómurum. Einn þeirra, Ásmundur Helgason, reyndist vanhæfur vegna skipunar en samkvæmt stefnunni var ekki fjallað um vanhæfi annars dómarans, Ragnheiðar Harðardóttur. Ragnheiður tók sæti í dómnum þrátt fyrir að hún hafi starfað sem næstæðsti starfsmaður gagnaðila Atla í málinu og hafi, að sögn hans, starfað sem fulltrúi hjá gagnaðil og komið að rannsókn sakamáls hans árið 2000.

Sætti „fjandsamlegri háttsemi“

„Stefnandi og fjölskylda hans hafa á öllum tímum sætt fjandsamlegri háttsemi á ábyrgð stefnda. Lögregluembættin á Suðurnesjum og í Reykjavík hafa beitt sér sérstaklega gegn stefnanda og beitt hann ranglæti og jafnvel fölskum ásökunum. Lögmenn og sér í lagi stjórnarmenn Lögmannafélags Íslands hafa lagt til atlögu gegn stefnanda sjálfum og þeim sem honum hafa tengst,“ segir í tilkynningu sem Nútímanum barst frá teymi Atla sem aðstoðar hann í málarekstrinum.

Atli segir að mannréttindabrot íslenska ríkisins hafi „ollið algjöru hruni í lífi stefnanda, fjölskyldu hans og annarra saklausra borgara.“

„Á sama tíma og félagið hóf að veitast að stefnanda sendi það honum tölvupósta um að leggja félaginu til fé. Leið stefnanda á þessum tíma eins og hann sætti fjárkúgun af hálfu félagsins. Stefnandi hefur verið rekinn úr réttarsal, meinaður aðgangur að opinberum stöðum og réttindum, ofsóttur af starfsmönnum velferðarsviða tveggja sveitarfélaga, verið neitað um aðstoð neyðarlínu, skjölum hefur verið dreift um hann í gegnum netsíður fyrir tilstuðlan velferðarsviðs Kópavogs, sem einnig hafa ritað stefnanda hatursorð og ógnandi tölvupósta og misnotað fatlaða stjúpdóttur hans til að koma hatri sínu til skila,“ segir í tilkynningunni.

Barnabarnið fengið að finna fyrir því

Þá kemur einnig fram að barnabarn Atla, sem hann hefur að eigin sögn alið upp frá fæðingu og hefur við hann frum- og öryggistengsl, hafi þurft að sæta ofbeldi og niðurlægingum vegna tilrauna til að rjúfa tengsl barnsins við hann. Þá hafi barninu, sem í tilkynningunni er sagt alheilbrigt, ítrekað verið lokað inni á heimili fyrir fatlaða.

„Synjun ríkislögmanns á ábyrgð stefnda er einnig lýsandi dæmi um þau ómálefnalegu og handahófskenndu sjónarmið sem stefndi og fulltrúar hans beita í málefnum stefnanda en jafnvel ríkislögmaður setur fram rangfærslur til að styðja mál sitt.“

Þá segir Atli að stjórn Lögmannafélag Íslands hafi „gengið út í ystu æsar“ og endurmetið heildarniðurstöðu refsidóms og lýst hann sekan um atvik sem hann hafði verið sýknaður af fyrir dómi.

Ollið algjöru hruni í lífi hans

„Við dómsmeðferð um niðurfellingu réttindasviptingar óskaði ríkissaksóknari eftir meðmælum Lögmannafélagsins sem í kjölfarið krafðist upplýsinga af stefnanda í 11 liðum sem öll snérust um 17 ára gömul atvik. Héraðsdómur vísað erindi lögmannafélagsins á bug en við tók Landsréttur sem notaði það til að rökstyðja brottfall allra þeirra réttinda sem stefnandi hafði öðlast við uppreist æru sinnar,“ segir í tilkynningunni.

Atli segir að mannréttindabrot íslenska ríkisins hafi „ollið algjöru hruni í lífi stefnanda, fjölskyldu hans og annarra saklausra borgara.“ Þá hafi hann vegna þess misst allar eigur sínar, atvinnu og þann möguleika að sjá fyrir sér „…og búið við langvarandi fátækt.“

Þá hafi „línulaga háttsemi“ hinna ýmsu umboðsmanna stjórnvalda og embættismanna orðið til þess að fjölskylda hans sé nú sundruð eftir langvarandi árásir á friðhelgi hennar „..og mennsku.“

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing