Nökkvi Fjalar Orrason, sölu- og markaðsstjóri Áttunnar, segir neikvæða umræðu um Hér með þér, framlag Áttunnar í Söngvakeppni Sjónvarpsins, styrkja hópinn. Lagið fékk yfir sig holskeflu neikvæðra ummæla á Twitter á laugardagskvöld en var engu að síður eitt af þremur lögum sem komst áfram. Sjáðu flutninginn á laginu frá því á laugardaginn í spilaranum hér að ofan.
Twitter var á yfirsnúningi á laugardagskvöld þegar seinna undanúrslitakvöldið í Söngvakeppni Sjónvarpsins fór fram. Kassamerkið #12stig var notað til að halda utan um umræðuna, eins og áður, og kepptist fólk við að koma athugasemdum á framfæri á meðan keppnin stóð yfir.
Margir voru neikvæðir í garð Áttunnar — svo neikvæðir að Melkorku Sjöfn, meðlimi Áttunnar, fannst nóg um
nei samt í alvöru djöfull getiði verið ófyndin og desparate í það að komast í top #12stig tweet hjá nútímanum, það er líka alveg hægt að vera komast á toppinn án þess að vera hater og gera lítið úr öðrum #jákvæðnistwitter #growup
— melkorka (@melkorka7fn) February 18, 2018
Þess má geta að Nútíminn beygði fimlega hjá því að birta diss í samantekt sinni, þó sprell hafi verið vel þegið. Hér má þó sjá dæmi um það sem fólk lét hafa eftir sér á laugardagskvöld
Ef áttan fer út sem fulltrúi íslands ætla ég að segja upp íslenskum ríkisborgararétt
— KarenBjörns (@karenbjorns) February 17, 2018
Grunar að mér líði svipað og mömmu leið þegar Silvía Nótt vann.. Silvía var samt að grínast, ekki áttan #12stig
— Heiðar Ingi Helgason (@heidaringi) February 17, 2018
Er ekki örugglega dómnefnd í úrslitunum til að passa að áttan verður ekki þjóð og landi til skammar? #12stig #guðblessiÍsland
— Elvar Sigurjónsson (@elvarsig96) February 17, 2018
Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem Áttan lendir í neikvæðu umtali. Í mars á síðasta ári steig Nökkvi Fjalar fram og hafnaði sögusögnum um að hópurinn hafi keypt áhorf á myndband Áttunnar á Youtube við lagið Neinei. Í færslu á Facebook sagðist Nökkvi vilja tjá sig um málið í ljósi særandi umræðu á Twitter og að ónefndur fjölmiðill hafi haft samband og spurt hvort áhorfin, sem nálgast 200 þúsund, hafi verið keypt.
Nökkvi segir í samtali við Nútímann að allt umtal sé af hinu góða. „Við látum svona umtal ekkert á okkur fá og einbeitum okkur bara að því að gera atriðið okkar betra og flottara,“ segir hann.
Svona lagað hefur alltaf hvatt okkur áfram og við ætlum klárlega að nýta þetta til að gera enn betur í Höllinni.
Nökkvi segir hópinn ætla nýta næstu tvær vikur vel og koma vel undirbúin í Höllina 4. mars þegar úrslitin fara fram. Lagið verður næst flutt á ensku sem Nökkvi segir henta laginu betur. „Við ætlum að gera atriðið okkar enn stærra og betra og við erum mjög spennt,“ segir hann.