Fjölmiðlar greindu frá því í gær að grunsamlegur tölvuhakkari hefði eytt öllu efni út af samfélagsmiðlum Áttu-sveitarinnar og uppnefnt þau „saurugt“ handbendi kapítalismans. Í dag birtist nýtt myndband sem krefur Áttuna lausnargjalds.
Áttan hélt neyðarfund í gærkvöldi og ræddi stöðu mála. Nútíminn náði engu sambandi við Áttu-liða í gærkvöldi en blaðamenn mbl.is náðu tali af Arnari Þór Ólafssyni, einum eigenda Áttunnar. Hann segist vera sleginn og að myndböndin sem eytt hafi verið hafi haft „mikið tilfinningalegt gildi“. Í gærkvöldi var því framtíð Áttunnar óljós.
„Við vorum að klára neyðarfund og vitum í rauninni ekkert um þetta,“ segir Arnar og sagði sveitina vonast til þess að um einhvern léttúðugan fíflagang væri að ræða.
Sjá einnig: Dularfulli hakkarinn krefst lausnargjalds: „Áttan hætti að gefa út tónlist”.
Nútíminn náði loks tali af Nökkva Fjalari, einum stofnenda Áttunnar, en erfiðara hefur verið að ná í hann heldur en páfann í öllum þessum skrípaleik. „Síminn hefur ekki stoppað.“
Nökkvi Fjalar segir sveitina því miður verða að gangast við kröfum tölvuþrjótsins og staðfestir hér með að sveitin gefi ekki út frá sér fleiri lög.
Nökkvi Fjalar Orrason
„Áttan mun því miður ekki gefa út fleiri lög“ segir Nökkvi Fjalar hryggur og sendir blaðamanni grátandi tjákn þessu til staðfestingar.
Spurning er hvort Nökkvi og félagar hefðu átt að leita ráða hjá Liam nokkrum Neeson, en hann hefur ágæta reynslu af gíslatökum og endurheimt gísla. Spurður að því hvort Áttu-liðar hyggist sækja hakkarann dularfulla til saka fyrir bellibrögð sín segist Nökkvi Fjalar hafa tekið þá ákvörðun með samverkamönnum sínum að leysa þetta hljóðlega og „í góðu“ á neyðarfundinum í gærkvöldi.
„Planið er að leysa þetta í góðu. Ástin mun sigra á endanum“ segir Nökkvi Fjalar í samtali við Nútímann. Greinilegt er að árásin hefur tekið mikið á Áttu-liða, enda mikill harmleikur að sjá vinnu sinni tortímt af glæpamönnum. Nökkvi segir þó sveitina ekki dauða úr öllum æðum og segir að árás hakkarans hafi komið til á besta tíma.
„Ætli það sé ekki kominn tími til að breyta til“ segir Nökkvi og spurður um ástæður þess að Áttan láti undan kröfum hakkarans svarar hann, „Ástæðan fyrir því er sú að við höfum lengi verið að hugsa um breytingar“.
Ekki hefur farið leynt að netverjum mörgum hverjum þykir þetta aðeins ódýr (eða rándýr) auglýsingabrella hjá sveitinni eins og Andrés Jónsson, almanntengill, hefur bent á á Twitter. Segir hann augljóst að sveitin standi sjálf á bakvið skrípalætin og til þess hafi þau líklegast fengið aðstoð auglýsingarstofu.
Mjög skemmtileg leið til að kynna nýjasta meðlim Áttunnar, hakkarann í hópnum. Þetta hlýtur að vera eitthvað á vegum þeirra sjálfra 🙂
— Andres Jonsson (@andresjons) February 25, 2019
Nökkvi Fjalar segir að hver verði að dæma fyrir sig, hvort um raunverulega og þá ansi heppilega árás sé að ræða eða hvort hakkarinn knái sé í raun í venslum við Áttu-liða sjálfa. Einnig hefur verið bent á að áhorfsfjöldatölur haldast óbreyttar á YouTube reikningi sveitarinnar, líkt og myndböndin hafi aðeins verið falin en ekki eytt.
Nökkvi Fjalar segir þetta vera „endalok Áttunnar eins og við þekkjum hana“ og að sveitin ætli að nýta tækifærið og koma sterk inn með nýjar áherslur þegar sveitin hefur náð að sleikja sárin. Hann segist ekki vita í hvaða ástandi þeim verði skilaðir samfélagsmiðlareikningarnir en tekur þó fram að sveitin hyggjist byrja á byrjunarreit.
„Við munum ekki halda neinu efni inni og stefnan verður tekin í aðra átt. Munum nýta þetta til þess að gera eitthvað nýtt og spennandi“ segir Nökkvi Fjalar í samtali við Nútímann.
Þykir það djarft af sveitinni en myndbönd Áttunnar, „Nei nei“ og „Ekki seena“ voru meðal vinsælustu myndbanda landsins á síðustu árum og var „Nei nei“ með hátt í 1,5 milljón áhorf. Nökkvi Fjalar segir að þrátt fyrir að sveitin sé gríðarlega stolt af þeim árangri sé greinilega kominn tími til að sigla á önnur mið.
Engin opinber yfirlýsing hefur borist frá Áttunni, önnur en þessi skilaboð til Nútímans, sem einnig þykir grunsamlegt.
Aðdáendur Áttunnar eru því nauðbeygðir til að bíða til hádegis á morgun en þá hefur hakkarinn dularfulli boðað nýja myndbandsbirtingu. Ljóst er að hann hefur fengið sínu framgengt og Áttan hefur enn einu sinni, umdeild eða ekki, skotið sér upp á stjörnuhiminn í íslenskri poppmenningu.