Veitingastaðurinn Nana Thai í Skeifunni lokar á föstudaginn en staðurinn hefur undanfarin ár boðið upp á einn besta tælenska matinn í bænum. Enginn tekur lokun staðarins meira nærri sér en sjónvarpsmaðurinn Auðunn Blöndal sem hefur verið fastagestur á Nana Thai undanfarin sjö ár og mætt nánast daglega í hádeginu ásamt Steinda, Sveppa og félögum þeirra.
Auðunn sat á Nana Thai þegar Nútíminn náði í hann hann. „Föstudagurinn verður sorgardagur en ég hef komið hingað þrisvar til fjórum sinnum í viku síðustu sjö ár.
Þetta verður erfitt fyrir vanafastann mann eins og mig. Ég er það vanafastur að það fer í taugarnar á mér þegar starfsfólk fer í sumarfrí.
Tómas Boonchang, eigandi staðarins mun opna nýjan stað í anda Nana Thai á Hverfisgötu og Auðunn reiknar með að vera duglegur að mæta þangað. Hann segist þó eiga eftir að sakna Skeifunnar mikið. „Það verður erfitt að kveðja Skeifuna og breyta til, það er allt svo þægilegt hérna,“ segir Auðunn.
Auðunn ákvað að kveðja Nana Thai með stæl vera extra duglegur að heimsækja staðinn í vikunni. „Ég er búinn að borða hérna alla daga í þessari viku og ætla að koma á morgun líka.“