Líkanreikningar benda til þess að rúmmál kviku sem safnast hefur í kvikuinnskotið undir Svartsengi sé orðið svipað og þegar eldgos hófst 18. desember. Þetta kemur fram á vefsíðu Veðurstofu Íslands.
Jarðskjálftavirkni helst nokkuð svipuð og hefur verið undanfarna daga. Enn mælist frekar lítil skjálftavirkni en hún er að mestu bundin við svæðið á milli Hagafells og Stóra Skógfells þar sem miðja kvikugangsins er staðsett. Áfram er einnig nokkur skjálftavirkni í Fagradalsfjalli og hefur hún verið viðvarandi frá 18. desember.
Landris mælist enn á svæðinu í Svartsengi sem hefur á heildina litið verið nokkuð stöðugt frá gosinu 18. desember, sbr. rauðu punktana á meðfylgjandi mynd, sem sýnir mælingu GPS stöðvarinnar SENG í Svartsengi. Land hefur risið u.þ.b. 5 mm á dag undanfarið og er hæð nú um 5 cm hærra en mældist fyrir kvikuhlaupin 10. nóvember og 18. desember síðastliðinn.
Líkanreikningar sem byggjast á aflögunarmælingum (GPS og gervihnattamyndum) benda til þess að rúmmál þeirrar kviku sem hefur safnast í lárétta kvikuinnskotið undir Svartsengi síðan 18. desember er nú orðið svipað og það magn sem hljóp þaðan og myndaði kvikuganginn sem gaus úr 18. desember síðastliðinn. Þetta þýðir að það er aukin hætta á kvikuhlaupi næstu daga. Það er mikilvægt að árétta að kvikuhlaup geta leitt til eldgoss og síðasta gos hófst með mjög skömmum fyrirvara.
Veðurstofan gaf út uppfært hættumatskort 5. janúar síðastliðinn og verður það endurmetið 12. janúar næstkomandi. Sérfræðingar Veðurstofunnar eru sífellt að meta nýjustu gögn og vaktar svæðið gaumgæfilega allan sólarhringinn.