Óhætt er að segja að hópur fólks sem sótti sambandsþing ungra Sjálfstæðismanna á Eskifirði um helgina hafi málað Austfirði rauða. Stór hópur fulltrúa á þinginu skemmti sér, bæði á Neskaupsstað og Eskifirði og að sögn bæjarbúa og fyrirtækjaeiganda sem Nútíminn ræddi við var umgengnin og hegðun margra sem sóttu þingið hreint út sagt skelfileg.
Ingvar Smári Birgisson var kjörinn nýr formaður SUS á þinginu eftir harða baráttu við Ísak Einar Rúnarsson. Íbúi í Neskaupstað sem vildi ekki láta nafns síns getið segir að ungu Sjálfstæðismennirnir hafi vaðið uppi og vanvirt bæina. „Hér eru haldnar útihátíðir á hverju ári sem tíu sinni fleira fólk sækir. Það var ekkert í líkingu við þetta,“ segir hann.
Annar íbúi sem Nútíminn talaði við sagðist aldrei hafa upplifað umgengni og hegðun í líkingu við þetta. „Dæmi eru um að kúkað hafi verið í ruslatunnu, tómatsósu og sinnepi sprautað á hús í bænum og einhverjir tóku upp á því að fleyta kerlingar með leirtauinu af barnum.“
Ef þetta er eru framtíðarleiðtogar íslensku þjóðarinnar þá segi ég bara: Drottinn blessi Ísland
Lögreglan á Austurlandi staðfestir að hún hafi þurft að hafa afskipti af gestum sambandsþingsins. „Samkoman fór vel fram en þó kom til einhverra afskipta lögreglu þar sem nokkra þekkingu vantaði upp á það hversu glatt mætti skemmta sér að næturlagi hér í eystra,“ segir í færslu á vef lögreglunnar.
Uppfært: Stjórn Sambands ungra Sjálfstæðismanna (SUS) vill koma því á framfæri að engin skemmtanahöld voru haldin á Neskaupstað á nýafstöðnu sambandsþingi, enda fór þingið ekki fram þar. Þingið fór að öllu leyti fram á Eskifirði. Háttsemi af því tagi sem lýst er í frétt Nútímans átti sér ekki stað á viðburðum SUS og reynt var eftir fremsta megni að tryggja að allt færi prúðlega fram í sátt við íbúa.