Alex B. Stefánsson, stjórnmálafræðinemi, tók flóttamanninn Sahid frá Afganistan upp í bíl sinn við Keflavíkurflugvöll í gær þar sem hann stóð kaldur og hrakinn í leit að fari Reykjavíkur. Alex ók Sahid á lögreglustöðina í Reykjavík þar sem hann hugðist sækja um dvalarleyfi en hann kom hingað til lands frá Þýskalandi.
Alex greindi frá málinu á Facebook þar sem hann segir ómannúðlegt að láta fátækt og illa hrakið fólk frá stríðshrjáðum löndum koma sér sjálft til Reykjavíkur. Hann vill að flóttafólk geti fundið áberandi stað á Keflavíkurflugvelli til að sækja um dvalarleyfi.
Áður en Alex ók Sahid á Lögreglustöðina ákvað hann að koma við heima hjá sér og gefa honum gamla dúnúlpu og vettlinga. Alex segist í samtali við Nútímann ekki vita hver afdrif Sahid urðu en vonar það besta. „Því miður veit ég ekki hvernig honum gekk. Hann talaði mjög takmarkaða ensku en ég vona að honum farnist vel,“ segir Alex.
Sorglegt að vita til þess að hann verði mögulegulega sendur aftur til Þýskalands vegna dyflinnarreglunar.
Eftir að hafa ekið Sahid á áfangastað fór Alex í skólann þar sem hann stundar nám í stjórnmálafræði. Þar voru málefni tengd þessu einmitt til umfjöllunar. „Tilviljun réð því að strax á eftir fór ég í stjórnmálafræðitíma í HÍ þar sem nýr sendiherra ESB á Íslandi veitti Kristjönu Júlíu Þorsteinsdóttur viðurkenningu fyrir mastersritgerð um notkun íslenska ríkisins á dyflinnarreglunni sem meginreglu, frekar en til undantekninga.“