Leikarinn og grínistinn Aziz Ansari hefur verið sakaður um kynferðisofbeldi af ljósmyndara í New York. Ljósmyndarinn er 23 ára kona sem hefur ekki komið fram undir nafni í fjölmiðlum en hún fór á stefnumót með Aziz í fyrra.
Aziz er þekktastur fyrir hlutverk sitt í þáttunum Parks and Recreation og fyrir þætti sína Master of None á Netflix en hann vann á dögunum Golden Globe-verðlaunin fyrir hlutverk sitt í þáttunum.
Umrædd kona hitti Aziz í partíi eftir Emmy-verðlaunin í Los Angeles í fyrra. Þau skiptust á símanúmerum og hittust á stefnumóti í Manhattan viku síðar. Í umfjöllun um málið á vefmiðlinum Vulture kemur fram að konan hafi sagt stefnumótið hafa byrjað eðlilega. Þau fóru út að borða og svo heim til hans en þar gerðist hann ágengur. „Allt í einu var höndin hans komin á brjóstið mitt,“ sagði konan.
Næsti hálftími fór í að ég stóð upp og færði mig og hann elti mig og rak fingur ofan í kokið mitt. Aftur og aftur. Mér leið eins og þetta væri einhver helvítis leikur … ég gaf í skyn að mér liði óþægilega með því að víkja frá honum og muldra.
Hún segist hafa sagt honum að ekkert kynferðislegt myndi eiga sér stað þetta kvöld og að í fyrstu hafi hann hlustað en svo svo ákveðið að reyna að ná sínu fram. „Hann sat, benti á klofið og gaf í skyn að ég ætti að fara niður á hann. Og ég gerði það. Mér leið eins og ég væri undir mikilli pressu. Þetta var bókstaflega það óvæntasta sem gat gerst því ég sagði honum að mér liði ekki vel með þetta,“ sagði hún.
Hún reyndi svo að horfa á sjónvarpið með honum áður en hann kyssti hana aftur, stakk fingrum sínum ofan í kok hennar og reyndi að hneppa frá buxunum hennar. Þá ákvað hún að yfirgefa íbúðina.
Konan hefur framvísað skjáskoti af samskiptum sínum við leikarann en hann sendi henni sms daginn eftir og þakkaði fyrir skemmtilegt kvöld. „Gærkvöldið var kannski skemmtilegt fyrir þig en ekki mig,“ sagði hún og gerði honum ljóst að hann hafi hunsað ábendingar um að henni liði ekki vel með það sem var í gangi.
Hann sendi henni skilaboð til baka og sagði að honum þætti þetta leitt, hann hafi misskilið aðstæður og að honum þætti það leitt.
Aziz hefur ekki tjáð sig um málið í fjölmiðlum.