Ada Hegerberg varð í gærkvöldi fyrsta konan sem hlýtur Gullknöttinn eða Ballon D’Or verðlaunin í fótbolta. Ada hlaut verðlaunin í kvennaflokki en þegar hún tók við verðlaununum bað kynnir kvöldsins hana um að twerka.
Hegerberg svaraði fljótt neitandi og hafði ekki húmor fyrir spurningunni sem plötusnúðurinn Martin Solveg lagði fram. Atvikið hefur vakið mikla athygli og reiði en Solveg hefur beðist afsökunar á spurningunni.
„Allir sem að hafa unnið með mér vita hversu mikla virðingu ég ber fyrir konum,“ sagði hann í morgun.
Margir hafa tjáð sig um atvikið á samfélagsmiðlum og þar á meðal eru nokkrar íslenskar knattspyrnukonur sem segja atvikið skammarlegt.
Landsliðskonan Sif Atladóttir er þeirra á meðal en hún tjáði sig um atvikið á Twitter í gær og sagðist ekki geta meir.
„Alltaf þegar við tökum skref áfram förum við tíu til baka. Berðu virðingu fyrir manneskjunni og vinnu hennar og ekki vera f****** hálfviti,“ skrifar Sif.
I’m sorry, but I just can’t anymore. Every time I think we have taken a step forward we go back ten. Respect the person, respect the work and don’t be a f****** asshole! #nomorefuckstogive https://t.co/NuGk51hZvY
— Sif Atladóttir (@sifatla) December 3, 2018