Nú hefur verið ákveðið að setja eldri Herjólf í rekstur yfir Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum næstu helgi. Nýr Herjólfur var tekin í notkun í júní á þessu ári en báðir verða þeir í rekstri yfir Þjóðhátíð.
Eldri Herjólfur mun sigla eina ferð til Eyja á föstudeginum klukkan 13 og eina ferð frá Eyjum á mánudeginum klukkan 11:30. Hægt verður að kaupa miða í ferjuna í gegnum dalurinn.is samhliða miðum má Þjóðhátíð. Miðarnir eru komnir í sölu.
Í fréttatilkynningu kemur fram að Þjóðhátíðarnefnd vilji nota tækifærið og þakka Herjólfi ohf fyrir mikið og gott samstarf. „Nefndin veit að mikið álag hefur verið á félaginu og starfsmönnum þess undanfarnar vikur, þau eru með þessu að mæta þörf samfélagsins fyrir auknar samgöngur en allt er orðið fullt til Eyja föstudaginn 2. ágúst og frá Eyjum mánudaginn 5. ágúst en það eru þeir dagar sem gestir Þjóðhátíðar vilja helst ferðast á,“ segir í tilkynningunni.