Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, lögmaður annars mannanna sem kærðir eru fyrir nauðganir eftir skólaskemmtanir í Háskólanum í Reykjavík, segir að báðir mennirnir neiti sök. Þá segir hann að kæra hafi verið lögð fram gegn konunum fyrir rangar sakagiftir. Þetta kom fram í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun.
Í viðtalinu við Vilhjálm kom enn fremur fram að Fréttablaðið hefur verið krafið um samtals 20 milljónir króna í miskabætur vegna fréttar sem birtist á forsíðu blaðsins í gærmorgun, 10 milljónir á mann. Loks segir Vilhjálmur að verið sé að íhuga málaferli gegn þeim sem deildu myndum af tveimur mönnum sem kærðir hafa verið fyrir nauðgun, nafngreindu þá eða kölluðu þá nauðgara á netinu.
Í Fréttablaðinu í gær kom fram að rannsókn lögreglu beinist að húsnæði í fjölbýlishúsi í Hlíðahverfi í Reykjavík, þar sem talið er að árásirnar hafi átt sér stað. Þá kemur fram að árásirnar hafi verið hrottalegar og íbúðin búin tækjum til ofbeldisiðkunar.
Fréttablaðið greindi frá því að lögregla hafi fundið í íbúðinni ýmis tól og tæki sem mennirnir eiga að hafa notað við nauðganir, svo sem svipur, reipi og keðjur. Loks segir að hankar hafi verið í loftinu sem grunur leikur á að mennirnir hafi notað til að hengja upp aðra konuna á meðan ráðist var á hana.
Vilhjálmur sagðist í Morgunútvarpinu telja ábyrgð Fréttablaðsins í málinu vera mjög mikla og að bein orsakatengsl væru milli fréttar blaðsins og þeirrar „múgæsingar“ sem hafi orðið í gær, þegar þúsundir manna birtu myndir af hinum grunuðu og nafngreindu þá á samfélagsmiðlum.
Fanney Birna Jónsdóttir, aðstoðarritstjóri Fréttablaðsins, var einnig í viðtali í Morgunútvarpinu í morgun. Hún sagði að Fréttablaðið stæði að öllu leyti við fréttina.
Vilhjálmur birti þetta myndband sem hann segir vera úr umræddri íbúð í morgun.
Í Fréttablaðinu í gær, 9. nóvember 2015, var því slegið upp á forsíðu, að íbúð í Hlíðunum hafi verið útbúin til nauðgana. Hér er myndband af íbúðinni. Dæmi nú hver fyrir sig. Engu að síður kýs aðalritstjóri Fréttablaðsins að berja höfðinu við steininn og segir í yfirlýsingu sem hún sendi frá sér í gær að Fréttablaðið standi við fréttina. Kærðu neita alfarið sök og styðja gögn málsins og vitnisburðir framburð þeirra. Aftaka kærðu á netinu í gær mun verða íslendingum til vansa um aldir alda. Á því ber Fréttablaðið fulla ábyrgð ásamt hlutaðeigandi mykjudreifurum. Á þá ábyrgð mun reyna.
Posted by Vilhjálmur H. Vilhjálmsson on Monday, November 9, 2015