Lilja Katrín Gunnarsdóttir, blaðamaður og leikkona, ætlar að baka í heilan sólarhring um helgina. Hún tekur á móti gestum allan tímann sem geta fengið sér bakkelsi og kaffi þeim að kostnaðarlausu og vonast hún til þess að þeir leggi Krafti lið í leiðinni.
Hún ætlar að hefja maraþonið kl. 12 á hádegi á morgun, laugardag en þá fer fyrsta kakan inn í öfn. Síðasta kakan fer inn í ofn sólarhring síðar, eða kl. 12 á hádegi á sunnudaginn. Á þessum sólarhring og eitthvað frameftir á sunnudeginum eru fólk velkomið á heimili hennar að Melgerði 12 í Kópavogi.
„Þá getur fólk gúffað í sig af vild en í staðinn fyrir að borga fyrir kræsingarnar er fólk hvatt til að styrkja Kraft, á staðnum eða leggja inn á bankareikning félagsins. Það er þó alls engin skylda en ég verð með sérstaka styrktarbauka í kaffisamsætinu. Og auðvitað rennur allur ágóði til Krafts,“ segir Lilja.
Hægt verður að fylgjast með bakstrinum á Facebook- og Instagram-síðu Blaka, sem og á Snapchat hjá Lilju, en notendanafnið hennar er liljagunn. Þá mun hún allar uppskriftir sem hún bakar eftir í maraþoninu inn á blaka.is þegar tími gefst.
32 kíló af hveiti, 25 kíló af sykri, 15 lítrar af rjóma…
Lilja segir að það verði líklega dálítið skrýtið að fá ókunnuga gesti í köku klukkan fjögur að nóttu til en örugglega skemmtilegt. Hún segist vera vön því að vaka með litlu stelpunni sinni sem finnst lítið gaman að sofa og býr einnig að því að hafa vakað lengi og skemmt sér á Þjóðhátíð í Eyjum áður en hún eignaðist börn.
32 kíló af hveiti, 25 kíló af sykri, 5 kíló af flórsykri og 15 lítrar af rjóma er meðal þess sem Lilja er búin að útvega fyrir baksturinn. „Ég er búin að vera að keyra á milli staða og sækja allskonar góss og það er mikil líkamsrækt að bera þetta inn í íbúðina,“ segir hún.
Lilja setti saman lista yfir uppskriftir fyrir einni og hálfri viku. Þó bætist reglulega eitthvað við þegar henni dettur eitthvað nýtt í hug.
„Ég vaknaði bara einn morguninn og hugsaði að það væri sniðugt að baka í sólarhring. Mér finnst mjög gaman að baka og geri það á öllum tímum dagsins. Ég fæ mjög oft að heyra frá sex ára dóttur minni; þú ert alltaf að baka,“ segir hún.
Síðustu ár hefur Lilja oft tekið þátt í Reykjavíkurmaraþoninu. Í ár er hún aftur á móti með lítið barn sem sefur lítið og sá því ekki fram á að geta tekið þátt. „Mig langaði að gera eitthvað,“ segir hún.
Ég veit að bakstur er ekki að fara að breyta heiminum en maður getur glatt fólk með því að baka.
„Þetta verður örugglega skrýtið en líka gaman. Ég er algjörlega að renna blint í sjóinn. Það verður mjög skemmtilegt á sunnudagskvöld að horfa til baka. Það verður líka gaman ef það gengur vel og endurtaka leikinn síðar,“ segir hún.
Lilja vildi hafa tengsl við málefnið en segist vera svo heppin að í hennar nærfjölskyldu er ekkert málefni sem hún tengir við. Frænka eiginmanns hennar fékk aftur á móti krabbamein þegar hún var barn, varð mjög veik en lifði af. Hún missti fótinn og er ein þeirra sem kom fram í vitundarvakningu Krafts, #ShareYourScar.
Lilja segir að átakið hafi haft mikil áhrif á hana. „Maður getur ímyndað sér að þetta sé mjög erfitt og þá er mikilvægt að hafa svona gott félag eins og Kraft,“ segir hún.