Auglýsing

Baltasar Kormákur gerir leikna þáttaröð byggða á Guðmundar- og Geirfinnsmálinu

Leikin þáttaröð byggð á Guðmundar- og Geirfinnsmálinu er í bígerð. Baltasar Kormákur og fyrirtæki hans, RVK Studios, framleiðir þættina í samvinnu við Buccaneer Media. Þetta kemur fram á vef Deadline.

Þættirnir kallast The Reykjavík Confessions. Simon Cox, fréttamaður BBC, fjallaði um málið á sínum tíma en umfjöllun hans er kveikjan að þáttunum. Deadline greinir frá því að Cox komi að verkefninu sem ráðgjafi.

Guðmundar- og Geirfinnsmálið er viðamikið sakamál, kennt við Geirfinn Einarsson og Guðmund Einarsson. Þeir tengjast ekki þrátt fyrir að bera sama föðurnafn. Það eina sem tengir þá saman eru sakborningar málsins.

Árið 1980 voru sex ung­menni dæmd til fang­els­is­vistar fyrir að hafa orðið tveimur mönnum að bana. Lík mann­anna hafa aldrei fund­ist og byggð­ist dóm­ur­inn því á öðrum sönn­un­ar­gögn­um, meðal ann­ars játn­ingum sem síðar voru dregnar til baka. Talið er að játningarnar hafi verið fengnar fram með pynt­ing­um. Þá hafa rannsóknaraðferðir lögreglunnar verið gagnrýndar.

Þáttaröð Baltasars verður á ensku en hann segir í samtali við Deadline að málið hafi fylgt íslensku þjóðinni í 40 ár. „Ég fékk að kynnast einstaklingum sem voru dæmdir í þessu máli og heyra þeirra hlið,“ segir hann um The Reykjavík Confessions.

Þau halda ennþá fram sakleysi sínu og mér finnst það vera skylda okkar að glæða þessa flóknu morðgátu lífi.

Þáttaröðin er ekki sú eina sem unnið er að um málið. Netflix er stærsti einstaki fjármögnunaraðili heimildarmyndar um Guðmundar- og Geirfinnsmálið sem Sagafilm vinnur nú að.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing