Auglýsing

Bandarísk kona drukknaði þegar eftirlíking af víkingaskipi hvolfdi í Noregshafi: Skipið kom til Íslands árið 1998

Bandarískur fornleifafræðingur drukknaði á þriðjudagskvöld þegar eftirlíking af víkingaskipi fórst í Noregshafi en sex manns voru um borð þegar skipið lenti í miklu óveðri um það bil 100 kílómetra vestur af sveitarfélaginu Stad, nærri Álasundi.

Hin 29 ára gamla Karla Dana var bandarískur fornleifafræðingur sem sérhæfði sig í sögu víkinga.

Hin tíu metra langa eftirlíking yfirgaf höfnina í Tvøroyri í Færeyjum síðdegis á laugardag og var áætlað að ferðin tæki 3 til 5 daga. Ferðin var hluti af verkefninu „The Viking Voyage“ en henni hafði verið frestað nokkrum sinnum vegna veðurs.

Fannst undir skipinu

Það var svo á þriðjudagskvöld sem norsku strandgæslunni barst neyðarboð frá Naddoddi en þá var mikið óveður í Noregshafi, um tuttugu metrar á sekúndu og allt að sex metra háar öldur.

Svona leit Naddoddur út þegar eftirlíkingin hafði verið dregin til hafnar af norsku strandgæslunni.

Í fyrstu var talið að neyðarboðið væri „fölsk viðvörun“ en þegar annað neyðarboð barst um klukkutíma síðar voru tvær þyrlur sendar til leitar auk björgunarskipa.

Eins og kom fram hér að ofan var fimm skipverjum bjargað en þeir höfðu náð að koma sér um borð í uppblásinn björgunarbát. Konan fannst skömmu síðar og þá undir skipinu sem hvolfdi í óveðrinu.

Lentu í vandræðum við Íslandsstrendur

Eftirlíkingin af víkingaskipinu var smíðuð í Færeyjum og bar nafnið „Naddoddur“ til heiðurs norskum víkingi sem var ýmist kallaður það eða Naddoður. Naddoddur þessi er talinn vera fyrsti norræni maðurinn til að stíga fæti á Ísland um miðja 9. öld. Það gerði hann þó fyrir slysni eftir því sem fram kemur í Íslendingabók. Naddoddur var á leið frá Noregi til Færeyja en vegna slæmra veðurskilyrða barst skip hans út af leið og endaði við austurströnd Íslands á svæði sem við þekkjum nú undir nafninu Reyðarfjörður.

Skipverji á norska björgunarskipinu Idar Ulstein tók þetta myndskeið þegar fimm skipverjum var bjargað fyrir utan strendur Noregs. Hér sést hversu erfið veðurskilyrði voru á svæðinu á þriðjudagskvöld.

Eftirlíking þessi hefur siglt til Íslands en það var árið 1998. Þá sigldu sex Færeyingar frá Tvøroyri til Reyðarfjarðar á Naddoddi. Engin hjálparvél var í skipinu þá né þegar því hvolfdi á þriðjudagskvöld og var aðeins notast við segl og árar.

Allt var gert til að líkja eftir aðstæðum víkinga. Morgunblaðið fjallaði um svaðilför Færeyinganna þann 19. júní árið 1998 en þar kom fram að „lítið hafi vantað upp á að færeysku víkingarnir fjórir næðu að klára ætlunarverk sitt, að sigla frá Færeyjum til Reyðarfjarðar á sexæringnum Naddoddi, en hinir íslensku norðanvindar komu í veg fyrir það.“

Hér sést Naddoddur á siglingu fyrir utan strendur Færeyja áður en því hvolfdi.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing