Bandarísk yfirvöld hafa sektað samfélagsmiðlarisann Facebook um fimm milljarða dali fyrir brot á lögum um persónuvernd. Það jafngildir 609 milljörðum króna og er hæsta sekt fyrir slíkt brot í sögu Bandaríkjanna. Þetta kemur fram á vef Bandarísku Neytendastofnunarinnar.
Facebook er einnig gert að herða reglur um persónuvernd á miðlum sínum og ráðast í skipulagsbreytingar. Bandaríska Neytendastofnunin segir að Facebook hafi ekki uppfyllt loforð um að vernda notkunargögn milljarða einstaklinga um allan heim. Fyrirtækið hafi ekki gert notendum kleift að stjórna því hvernig upplýsingar séu notaðar.