Bardagakonan Sunna Davíðsdóttir hefur gert styrktarsamning við bandarísku nautgriparæktunina Victoy Beef. Sagan á bakvið hvernig samningurinn kom til er ansi skemmtileg og hefst eftir að Sunna vann fyrsta atvinnubardagann sinn í Kansas City í september.
Sjá einnig: Sunna vann bardagann við Ashley Greenway örugglega
Eftir sigurinn, þegar hún var búin að faðma alla, háma í sig krukku af Nutella og skella sér í sturtu, kíkti Sunna inn í sal þar sem bardagarnir fóru fram. Þar hitt hún vinalega náunga á eldri árum sem hrósuðu henni í hástert og vildu vita meira um hana og Ísland. Þau tóku svo þessa mynd og kvöddust:
„Þegar ég kom heim til Íslands fékk ég skilaboð frá Kelly þar sem hann sagðist vilja styrkja mig,“ segir Sunna í Facebook-síðu sinni.
Ásamt því að vera einn ljúfasti náungi sem ég hef á ævi minni hitt þá er hann bóndi sem framleiðir hágæðakjöt. Hann hugsar vel um skepnurnar sínar sem borða bara gras og eru ræktaðar í frjálsu og jákvæðu umhverfi í Tennessee.
Sunna borðaði nautakjöt og avokadó í morgunmat allt undirbúningstímabilið sitt og elskar góða steik, þannig að það þurfti lítið að sannfæra hana um að þetta væri góður kostur.
„Ég tilkynni því með stolti að ég er styrkt af Victory Beef. Takk fyrir stuðninginn og takk fyrir að hafa trú á mér! Nafnið á vörumerki þínu, Victory, segir allt sem segja þarf. Gerum þetta!“