Í nýrri aðgerðaráætlun gegn sykurneyslu Íslendinga er lagt til að hækka verð á gosdrykkjum og sælgæti um að minnsta kosti 20 prósent. Verð á grænmeti og ávöxtum mun lækka í staðinn. Sykurneysla á Íslandi er nú sú mesta á Norðurlöndum og á aðgerðaráætlunin að breyta því.
Sjá einnig: Íslenskir matgæðingar á því að Þristur sé besta íslenska nammið: „Hvað er málið með Íslendinga og lakkrís?“
Verslanir verða einnig hvattar til þess að hætta að bjóða tilboð á sykruðum vörum. Embætti landlæknis vann aðgerðaráætlunina fyrir Svandísi Svavarsdóttur, heilbrigðisráðherra. Aðgerðirnar eru í 14 liðum en samkvæmt embættinu er nauðsynlegt að hrinda í framkvæmd fjölda samstilltra aðgerða.
Svandís Svavarsdóttir skrifaði um málið í Morgunblaðinu í dag en þar leggur hún áherslu á mikilvægi þess að draga úr sykurneyslu. Svandís segir aðgerðaráætlunina í samræmi við lýðheilsustefnu ríkisstjórnarinnar.
„Á Íslandi, samanborið við önnur norræn lönd, er mest neysla á sykruðum gosdrykkjum og sykurríkum vörum. Sykraðir gos- og svaladrykkir vega þyngst í sykurneyslu hér á landi en rúmlega þriðjungur (34%) af viðbættum sykri í fæði landsmanna kemur úr þessum vörum. Verð á gosdrykkjum er lágt á Íslandi og lækkaði enn frekar þegar vörugjöld voru afnumin í byrjun árs 2015. Er það andstætt þeirri þróun sem á sér stað í vestrænum löndum þessi misserin,“ skrifar Svandís í Morgunblaðinu.
Hún bætir því við að hlutfall feitra sé of hátt á Íslandi og neysla á sykurríkum vörum auki líkurnar á offitu. Hún vitnar í nýja skýrslu WHO þar sem segir að það sé vaxandi vísindalegur grunnur fyrir því að vel skipulagðir skattar á matvæli, ásamt fleiri aðgerðum, geti verið áhrifarík leið til að bæta neysluvenjur.