Auglýsing

Barnsfaðir Steinunnar réðst á hana á heimili þeirra: „Ég elskaði þennan mann af öllu hjarta og hluti af mér gerir það enn“

Í dag er tæpt ár liðið frá því að barnsfaðir Steinunnar Helgu Kristinsdóttur réðst á hana á heimili þeirra í Bandaríkjunum. Hún var þá komin fjóran og hálfan mánuð á leið með son þeirra. Hann barði hana, tók þéttingsfast um háls hennar og hótaði að drepa hana.

Eftir árásina voru blóðslettur um allt baðherbergi hússins. Steinunn var illa farin á líkama og sál og ekki viss um að barnið hefði lifað árásina af. Hún náði ekki að flýja fyrr en nokkrum klukkustundum síðar.

Í dag mun maðurinn játa brot sín fyrir dómstól í Bandaríkjunum og hljóta átta ára langan skilorðsbundinn dóm fyrir árásina. Steinunn rekur sögu þeirra í áhrifaríkum pistli á Facebook-síðu sinni og gaf Nútímanum leyfi til að fjalla um málið. Hún segir að jafnvel þó að hún telji að réttarkerfið hafi brugðist henni með dómnum, þá verði gott að heyra hann játa sekt sína opinberlega.

„Þegar hann hætti loksins var andlit mitt óþekkjanlegt, ein tönnin mín var brotin, það var blóð út um allt og ég óttaðist verulega um líf mitt,“ skrifar Steinunn. Klukkutímana eftir árásina sat sambýlismaður hennar og drakk stíft. Nágranni þeirra kom og bankaði upp á en Steinunn þorði ekki að láta heyrast í sér.

„Þessi maður sat við dyrnar og ræddi við nágranna sinn og neyddi mig til að sitja á sófanum, þar sem sást ekki í mig, og sagði mér að þegja. Ég hélt í alvöru að ég myndi sitja þarna í húsinu þangað til sárin mín væru öll gróin, án þess að vita hvort barnið mitt væri lifandi eða dáið, bara svo hann gæti viðhaldið sakleysi sínu,“ skrifar Steinunn.

Eftir að hún hafði setið róleg með honum í nokkra klukkutíma og fullvissað hann um að hún myndi alls ekki tilkynna hann til lögreglunnar var hann orðinn svo drukkinn að hann virtist vera að deyja áfengisdauða í sófanum.

„Ég áttaði mig á því að nú væri tækifærið, gekk út úr húsinu og hann elti. Á þessari stundu var mér alveg sama, ég hugsaði að ef hann myndi reyna eitthvað gæti ég öskrað hátt og einhver hlyti að heyra í mér,“ skrifar hún. Steinunn náði að komast að veitingastað í nágrenninu þar sem hún gat hringt eftir aðstoð. Maðurinn var handtekinn og fluttur í fangelsi.

Hann var látinn laus tólf klukkutímum eftir árásina og hafði strax samband við Steinunni í von um að hún myndi fyrirgefa honum. Til að byrja með var hún staðföst og ákveðin í því að hleypa honum ekki nálægt sér en ekki leið á löngu þangað til að hún svaraði símtölum hans.

Í pistlinum segir Steinunn að markmiðið sé ekki að valda manninum skaða, heldur hafi hún þurft að létta af sér. Hún segist hafa reynt að loka á minningarnar og það sé ekki rétt. Staðreyndin sé sú að þetta gerðist og hún eigi ekki að skammast sín fyrir það sem hún gekk í gengum.

„Það hefur verið svo erfitt að rífa sig frá eitruðu sambandi af því að það voru líka svo margar stundir. Ég elskaði þennan mann af öllu hjarta og hluti af mér gerir það enn og ég glími við það á hverjum degi. Ég er síður en svo fullkomin og það koma margir dagar þar sem ég brotna niður og virðist vilja þennan mann aftur en djúpt í hjarta mínu veit ég að hann er maður sem mun aldrei breytast að fullu og það er eitthvað sem ég er að læra að meðtaka,“ skrifar Steinunn.

Hér má sjá pistilinn í heild sinni

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing