Sænski danstónlistarmaðurinn Jonas Erik Altberg, best þekktur sem Basshunter, er væntanlegur til landsins og kemur fram á tvennum tónleikum á Íslandi í lok mars.
Í tilkynningu kemur fram að hann hlakki til að skoða náttúruperlur landsins og hitta nágranna sína á Íslandi. „Jonas hefur áður komið til Íslands og heillaðist mikið af landi og þjóð,“ segir þar.
Basshunter kemur fram á Spot föstudaginn 24. mars og í Sjallanum 25. mars. Hann er þekktastur fyrir slagara á borð við Boten Anna, Dota, Now You’re Gone, All I Ever Wanted, I Promised Myself og Walk on Water.
Myndbönd hans eru með milljónir áhorfa og sjálfur er hann með rúmlega 2,8 milljónir fylgjenda á Facebook. „Það er ljóst að koma Basshunter er hvalreki fyrir íslenskt tónlistarlíf,“ segir í tilkynningunni.
„Hver stórstjarnan á fætur annarri kíkir í heimsókn til Íslands. Justin Timberlake, Bieber og núna hann Jónas. Hver kemur næst? Bono? Eða er toppnum náð?“
Forsala miða hefst föstudaginn 17. mars.