Breska ríkisútvarpið BBC fjallar um stóra FIFA 17-málið á vef sínum í kvöld. Haft er eftir Geir Þorsteinssyni, formanni KSÍ, að gagnrýnin ætti að beinast að EA Sports frekar en KSÍ og að það sé vissulega sorglegt fyrir leikmennina að vera ekki í leiknum, sem er einn sá vinsælasti í heimi.
Nútíminn sagði fyrstur fjölmiðla frá málinu í morgun. Í fréttinni kom fram að áhugi hafi verið fyrir því að hafa Ísland með í FIFA 17 en að samningar hafi ekki náðst milli tölvuleikjaframleiðandans EA Sports og KSÍ.
Geir Þorsteinsson, formaður KSÍ, sagði í samtali við Nútímann að EA Sports hafi boðið lága fjárhæð fyrir réttindin, lítilræði sem KSÍ sætti sig ekki við.
Sjá einnig: Máni segir gott hjá KSÍ að segja nei við FIFA 17: „Þetta er bara spurning um sjálfsvirðingu“
BBC greinir frá því að EA Sports hafi viljað greiða 15 þúsund dali fyrir að hafa íslenska karlalandsliðið með í leiknum en það eru um 1,7 milljónir íslenskra króna. „Þeir kaupa réttinn og vilja fá hann nánast frítt,“ segir Geir í samtali við BBC.
Frammistaða liðsins á Evrópkeppninni sýnir að við erum frekar gott lið og margir myndu vilja spila sem liðið í leiknum. Þetta er sorglegt fyrir leikmennina en gagnrýnin ætti frekar að beinast að EA Sports.
BBC greinir frá því að gjaldið sem EA Sports hugðist greiða hafi verið fyrir merki og ímynd íslenska liðsins.
„Ef við erum að bjóða réttinn finnst mér að raunverulegar samningsumræður þurfi að fara fram og gjaldið á að vera sanngjarnt,“ segir Geir við BBC. „Umræðurnar voru hvorki sanngjarnar né opnar.“