Bandaríski leikarinn og leikstjórinn Ben Stiller er staddur hér á landi og hefur sést á vappinu í Reykjavík undanfarna daga. Heimildir Nútímans herma að kappinn sé í fríi hér á landi.
Sjá einnig: Ólafur Darri í sjóðandi heitri hópkynlífssenu í Zoolander 2, sjáðu myndbandið
Stiller lenti á Íslandi snemma í síðustu viku og hefur meðal annars gripið sér kaffibolla á Mokka frá því að hann lenti. Hann er afar hrifinn af landi og þjóð og tók upp stóran hluta kvikmyndarinnar Secret Life of Walter Mitty hér á landi sumarið 2012.
Ólafur Darri og Stiller eru góðir félagar en þeir kynntust við tökur á Secret Life of Walter Mitty og Ólafur fékk í kjölfarið lítið hlutverk í grínmyndinni Zoolander 2.
Ben Stiller varð svo hrifinn af landinu að heyrst hefur að hann hafi boðið tæplega 200 milljónir króna í 600 fermetra lúxusvillu á Seltjarnarnesi eftir að tökum á Secret Life of Walter Mitty lauk.
Hann hafði ekki erindi sem erfiði en athafnamaðurinn Skúli Mogensen hefur nú keypt húsið.