Benjamin Þór Pálsson bjargaði 84 ára gömlum manni úr brennandi húsi í stórbruna í Overland Park í Kansas í Bandaríkjunum í gær. Þar hefur Benjamin búið alla ævi en hann á íslenska foreldra.
Í umfjöllun um málið á mbl.is kemur fram að Ben hafi orðið eldsins var þegar hann var á leiðinni heim úr skólanum. Eldur hafði kviknað í nýbyggingu og var farinn að dreifa sér í nærliffjandi hús.
Benjamin gekk þá í nærliggjandi hús og sá til þess að íbúar myndu koma sér út en slökkviðið var ekki komið á staðinn. Þegar hann kom að húsi hins 84 ára gamla Jim Lafakis sá hann að Jim sat pollrólegur inni og horfði á sjónvarpið með heyrnartól á hausnum.
„Við brutum upp hurðina á húsinu hans og fylgdum honum út um leið og ösku rigndi yfir okkur,“ segir Benjamin í samtali við mbl.is.
Benjamin fór svo aftur inn í húsið og sótti stólinn hans Jim sem fór svo aftur inn í húsið til að sækja símann sinn. „Þá fylgdum við honum aftur út úr húsinu en á þessari stundu var húsið að fyllast af reyk því eldurinn hafði dreifst í húsþökin,“ segir Benjamin í samtali við mbl.is.
Bandarískir fjölmiðlar hafa fjallað um hetjudáð Benjamins og hér má finna umfjöllun um málið á vef KCTV5.