Ummæli Öldu Karenar Hjaltalín um sjálfsvíg hafa vakið mikla athygli í vikunni. Alda Karen hefur haldið því fram að fólki með sjálfsvígshugsanir dugi að segja „ég er nóg“. Sálfræðingafélag Íslands sendi frá sér tilkynningu á Facebook í gær þar sem segir að það sé siðferðisleg skylda heilbrigðisstarfsmanna að benda á þegar opinber umræða sé á villigötum.
Sjá einnig: Alda Karen kennir fólki aðferð til að eignast pening: „Ég kyssi seðla“
„Þegar við tölum um geðraskanir og mögulega meðferð þá vöndum við okkur og tölum af ábyrgð. Gerum ekki lítið úr alvarlegum og flóknum vanda með því að benda á skyndilausnir,“ segir meðal annars í tilkynningunni.
Stundum sé gott að segja „ég er nóg“, það geti hjálpað þeim sem séu stressaðir fyrir próf eða með fiðrildi í maganum fyrir ræðu en slíkar skyndilausnir virki því miður ekki þegar um er að ræða alvarlegan vanda, sjálfsvíg og skilgreindar geðraskanir. Það að halda því fram geti haft skaðleg áhrif.
„Það kemur hvorki nornaveiðum né menntasnobbi við. Greinum á milli í umræðunni. Þegar við tölum um geðraskanir og mögulega meðferð þá vöndum við okkur og tölum af ábyrgð. Gerum ekki lítið úr alvarlegum og flóknum vanda með því að benda á skyndilausnir.“